\"Ég held að það sé fátt mikilvægara fyrir langtíma framtíð Íslands en það að gjafkvótinn verði afnuminn til þess að þessari svakalegu rentusókn LÍÚ linni.\"
Þetta skrifar Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum í nýjustu færslu sinni á fésbókinni, en tilefni skrifanna er að Morgunblaðið birti ekki grein eftir sendiherra Bandaríkjanna um þvingunaraðgerðir Evrópu, Bandaríkjanna, Kanada og Japans gagnvart Rússum sakir yfirgangs þeirra í Úkraínu.
Komið hefur í ljós að vegna tæknilegra ástæðna láðist að birta greinina í Mogga, að því er þar segir um helgina, en sendiherrann afréð að birta grein sína á fésbók sinni sem vakti bæði athygli og umtal í íslenskum fjölmiðlum, þar á meðal hér á Hringbraut.
Jón Steinsson er einn þeirra sem leggur hér saman tvo og tvo, þrátt fyrir útskýringar Mogga. Hann segir sendiherrann einfaldlega hafa verið að árétta það að refsiaðgerðirnar eru hluti af stefnu NATO ... \"þótt varðhundar LÍÚ á Íslandi telji það henta sér að tala um aðgerðirnar sem uppátæki ESB,\" skrifar Jón.
\"Vá ... hægri armur Sjálfstæðisflokksins er virkilega kominn út í móa í hagsmunagæslu sinni fyrir LÍÚ,\" skrifar hann ennfremur og bætir við sem fyrr segir: \"Ég held að það sé fátt mikilvægara fyrir langtíma framtíð Íslands en það að gjafkvótinn verði afnuminn til þess að þessari svakalegu rentusókn LÍÚ linni.\"
Og hér skal tekið fram að nafni samtaka útgerðarmanna var nýlega breytt úr Landssamtökum íslenskra útgerðarmanna, LÍÚ, í Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS.