Jón ásgeir: „maður upplifði þetta sem ofbeldi“

„Það var ótrúlegt að fara í gegnum þetta og upplifa hvernig kerfið getur virkað,“ segir Jón Ásgeir Jóhannesson en hann er gestur Sigmundar Ernis í þættinum Mannamál sem sýndur er hér á Hringbraut annað kvöld. Jón Ásgeir hefur verið undir radarnum síðustu ár líkt og hann orðar það sjálfur í viðtalinu og veitir sjaldan stór viðtöl. Í þættinum fer Jón Ásgeir ítarlega í saumana á Baugsmálinu, átökin við Davíð og Sjálfstæðisflokkinn, fall Glitnis og hvaða áhrif allt þetta hafði á fjölskylduna.

Jón Ásgeir hafði glímt við ákæruvaldið í meira en 15 ár þegar Hæstiréttur ákvað að taka ekki fyrir áfrýjun í Aurum málinu en þar var Jón Ásgeir sýknaður um hlutdeild í umboðssvikum. Þegar Jón Ásgeir lýsti upplifun sinni á því að vera til rannsóknar öll þessi ár, svaraði hann: „Maður upplifði þetta bara sem ofbeldi, sérstaklega þegar málið var í rannsókn.“

Jón Ásgeir tjáði sig einnig um upphafið að rannsókn Baugsmálsins.  „Maður tók eftir að það væri verið að rannsaka málið til sektar. Þeir eru ekki stærri menn.“ Þá var Jón Ásgeir spurður hver ástæðan hafi verið fyrir þessari óvild í hans garð.

„Það bjó að baki ákveðin kergja sem byrjaði á Bónusárunum. Við förum að takast á við aðila sem eru innstu koppur í búri í Sjálfstæðisflokknum, svokallað heildsalaveldi sem að lenti í vandræðum og menn komust ekki upp með okur sem hafði staðið yfir um langt skeið. Ákveðnir  pólitískir aðilar litu svo á að við værum að spila án þess að tala við þá. Það hefur sést annars staðar að þeir sem eru að byggja upp viðskiptaveldi og biðja ekki um leyfi frá pólitíkusum, þeir lenda oft í vandræðum, að þessu afli er beint gegn þeim.“

Aðspurður hvort hann hafi fundið fyrir óvild Davíðs Oddssonar þáverandi formanns Sjálfstæðisflokksins svaraði Jón Ásgeir:

„Ef maður rifjar upp söguna þá er það nokkuð klárt. Hann kenndi hann okkur um verðbólguna í kringum aldamótin og svo trylltist allt þegar við komum að Fréttablaðinu,“ svaraði Jón Ásgeir og bætti við: „Menn litu þannig á það að við værum að ganga erinda miðjuafla í samfélaginu sem ætluðu að hrifsa völdin af íhaldinu.“

Þátturinn Mannamál verður á dagskrá annað kvöld klukkan 20:00.