Jól í skugga ástvinamissis - á að leggja á borð fyrir alla?

Jólin eru hjá sumum haldin í skugga ástvinamissis. Einhvers sem hefur látist fyrir aldur fram eða þess sem féll frá áður.

Halldór Reynisson hefur starfað sem prestur og vinnur með Sorgarmiðstöðinni sem hefur fjallað um þetta á opnum fundi í aðdraganda jóla.

Halldór var gestur Lindu Blöndal í þættinu 21 í gærkvöldi.

„Það er kallað eftir þessu að þegar fólk hefur orðið fyrir sárum missi þá eru jólin einhver erfiðasti tími sem hugsast getur á árinu“

Halldór sem hefur langa reynslu af samfylgd með syrgjendum segist aðallega miðla reynslu fólks sem er að ganga í gegnum jól í djúpri sorg, sérstaklega eftir ástvinamissi. Hann talar mikið við fólk sem hefur misst ástvin og svo eru jólin að koma sem reynir á tilfinningar og tengsl.

„Það má kannski segja að sorg og missir, eftir því sem sorgin er ótímabærari, fráfall kannski ungrar mannsekju, föður, móður eða barns, þeim mun djúpar ristir sorgin“, segir Halldór en segir að auðskiljanlega geti sorg verið í kringum skilnaði eða áföllum öðrum.   

„Samt er þetta þannig með dauðann, hann er svo óafturkræfur. Hann eða hún sem er farinn kemur ekki til baka. Og ég tek stundum sem dæmi að þegar stillt er upp matardiskunum á aðfangadagskvöld“.

Oft er sá nýlátni ekki lengur við jólakvöldverðinn og segir Halldór að slík atriði skipti fólk oft miklu máli

Hvað á að gera við þennan eina matardisk? Hafa hann á borðinu eða?

„Það er gott að ræða saman um hvernig fjölskyldan ætlar að ganga í gegnum jólin og meðal annars svona atriði. Ætlum við að hafa einhvern sið sem tengist þessum fjölskyldumeðlim sem er farinn frá okkur?  Aðal atriðið er að láta í ljós hugsanir sínar áður en jólin ganga í garð og taka sameiginlega ákvörðun ...En um tóma diskinn ...ef við erum að tala um þessa hátíðlegustu máltíð ársins á aðfangadagskvöld. Það er allt í lagi að byrja bara á því að finna til og syrgja og jafnvel gráta og minnast manneskjunnar sem að hefði annars setið þarna með okkur. Þá er jafnvel auðveldara að grípa aftur gleðina sem við tengjum við jólin“.

„Það er gott að vera bara frjáls að viðurkenna þörf sína til að gráta og jafnvel til að hlæja. Hlæja kannski að uppátektum hennar eða hans sem er farinn. Það er hluti af því að syrgja“

En finnst fólki að það mega hlæja?

„Ég hef sem prestur verið oft verið boðberi vályndra tíðina og ég hef oft upplifað það að eftir þetta fyrsta högg sem er eins og heimsendir hjá fjölskyldum og þegar fólk er búið að gráta og  allir setjast niður og fara að tala og minnast, rifja upp einhverjar góðar minningar þá fer það að hlæja af einhverju sem er skemmtilegt um þann sem er horfinn og hláturinn og gráturinn eru bara systkyni“.