Illugi í vinnu fyrir orka energy

Menntamálaráðherra fór í lok mars í opinbera vinnuferð til Kína á kostnað ríkisins með hóp embættismanna og annarra. Með í för voru fulltrúar frá fyrirtækinu Orka Energy sem vinnur að orkutengdum verkefnum í Asíu. Það sem ekki hefur komið fram opinberlega er að ráðherrann er á launum hjá Orka Energy sem ráðgjafi. Það kemur skýrt fram á vef Alþingis þar sem fjallað er um fjárhagslega hagsmuni og trúnaðarstörf utan þings. Á vefnum er að finna svar Illuga Gunnarssonar við spurningunni “Starfsemi sem unnin er samhliða starfi alþingismanns og er tekjumyndandi fyrir hann eða félag sem hann á sjálfur eða er meðeigandi í.” Þar segir orðrétt: "Ráðgjafastörf fyrir Orka Energy Singapore. Um er að ræða ráðgjöf vegna verkefna fyrirtækisins í Asíu.”


Á vef menntamálaráðuneytisins er að finna fréttatilkynningu frá 19. mars sl. þar sem fram kemur hverjir voru í för með ráðherranum í “vinnuferð” hans. Einungis er um að ræða fulltrúar frá tveimur fyrirtækjum. Annað þeirra er Orka Energy.


Athygli vekur að ekki voru með í för forsvrsmenn fleiri íslenskra orkufyrirtækja. Það lítur óneitanlega heldur illa út að ráðherra sem þyggur ráðgjafalaun hjá fyrirtæki skuli nota stöðu sína sem ráðherra til að setja upp opinbera heimsókn til stórveldisins Kína og bjóða með í ferðina því fyrirtæki sem hann þyggur tekjur frá. Ríkissjóður kostar ferð ráðherrans og fylgdarfólks hans úr ráðuneytinu og utanríkisþjónusta þjóðarinnar er notuð til að skipuleggja heimsóknina.


Hvar liggja mörkin vegna opinberra starfa ráðherra og einkatekjuöflunar hans fyrir Orka Energy? Hvernig kemur þetta heim og saman við starfsreglur ráðherra og siðareglur ríkisstjórnar Íslands?


Hefði ekki verið nauðsynlegt að skýra frá þessum tengslum fyrirfram og bjóða öðrum orkufyrirtækjum fyrirgreiðslu af svipuðu tagi af hálfu stjórnvalda? Hefði ekki þurft að upplýsa hve miklar tekjur ráðherrann þyggur frá Orka Energy? Einnig vekur athygli að engar fréttir hafa borist hingað heim af þessari ferð eins og almennt gerist þegar um opinberar heimsóknir eða vinnuferðir ráðamanna er að ræða.
Loks má spyrja hvort orkumál og orkunýting eigi að vera sérstakt viðfangsefni menntamálaráðherra?