Hræsni: svar til þorsteins víglundssonar

Nú eru þeir sem tengjast eða hafa tengst atvinnulífinu brjálaðir yfir því að formaður VR hafi lagt til við trúnaðarráð VR að setja alla stjórnarmenn af sem stóðu að því að hækka vexti hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna.

Það er rétt að allir átti sig á því að þegar við samþykktum að semja á hófstilltum nótum við Samtök atvinnulífsins, þá var það gert vegna þess að SA seldu okkur að slíkt myndi leiða til lægri vaxta á Íslandi. Því var ekkert annað í stöðunni en að skipta út fulltrúum VR í stjórn lífeyrissjóðsins í ljósi þess að stjórn sjóðsins vann gegn markmiðum lífkjarasamningsins með því að hækka vextina.

Það er grátbroslegt að sjá og heyra viðbrögð eins og t.d. frá fyrrverandi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og núverandi þingmanni Viðreisnar, Þorsteini Víglundssyni, sem gagnrýnir harðlega þessa ákvörðun hjá formanni sem og trúnaðarráði VR. En Þorsteinn og Guðrún Hafsteinsdóttir formaður hjá Landssambandi lífeyrissjóða hafa kallað eftir inngripi frá Fjármálaeftirlitinu.

Manni verður flökurt yfir þessum viðbrögðum frá bæði Þorsteini og Guðrúnu. Af hverju verður manni flökurt? Jú, vegna þess að atvinnurekendur hafa fengið að vaða um lífeyrissjóði launafólks í gegnum árin og áratugina eins um sparibauka atvinnulífsins sé um að ræða.

Nægir að nefna í því samhengi að rifja upp að lífeyrissjóðirnir töpuðu 500 milljörðum af lífeyri launafólks í Hruninu, allt vegna glórulausra fjárfestinga í fjármálakerfinu og atvinnulífinu.

Magnað að þessir áðurnefndu aðilar skyldu ekki hafa kallað eftir úttekt frá Fjármálaeftirlitinu til að rannsaka 500 milljarða tap lífeyrissjóðanna vegna glórulausra fjárfestinga í fjármálakerfinu á sínum tíma.

Það væri t.d. forvitnilegt ef Þorsteinn Víglundsson myndi upplýsa launafólk hvað lífeyrissjóðirnir töpuðu af lífeyri launafólks vegna gjaldþrots BM Vallá. Þá er kannski rétt að hann upplýsi um leið hvað BM Vallá borgaði fyrir Sementsverksmiðjuna á sínum tíma.