Hörður ætlaði að binda endi á líf sitt: „ég var búinn að skrúfa frá gasinu og teipa fyrir allar rifur“

„Í dag 1. ágúst 2019 eru liðin nákvæmlega 44 ár frá því að örlagaríkt viðtal birtist við mig í tímaritinu Samúel. Viðtal sem hóf djúpristandi hugarfarsbreytingar hjá heilli þjóð, okkur öllum til heilla.“

Þetta segir Hörður Torfason tónlistarmaður á Facebook-síðu sinni. Þar rifjar hann upp viðtal við tímaritið Samúel þar sem Hörður upplýsti í víðlesnu tímariti að hann væri samkynhneigður. Viðtalið markar upphaf baráttu samkynhneigðar á Íslandi en það hafði djúpstæð áhrif á líf Harðar. Fyrir þann tíma hafði Hörður slegið í gegn sem tónlistarmaður og leikari. Hann var rísandi stjarna í listaheiminum, en undir niðri leið honum ekki vel, að vera í felum með kynhneigð sína. Eftir viðtalið hraktist Hörður úr landi og ætlaði síðan að fyrirfara sér. Í viðtali við Mannlíf greindi Hörður frá því að hann hefði hvergi fengið vinnu né húsnæði og því flúið til Kaupmannahafnar þar sem hann ætlaði að binda endi á líf sitt. Hörður segir:

„Ég var búinn að skrúfa frá gasinu og teipa fyrir allar rifur, alveg tilbúinn að deyja, þegar eitthvað í mér gerði uppreisn. Ég var ungur maður, hafði hæfileika sem leikari, söngvari og lagasmiður og mér fannst ég eiga skilið að lifa lífi mínu á eigin forsendum. Ég skrúfaði fyrir gasið og tók þá ákvörðun að berjast fyrir réttindum mínum og annarra samkynhneigðra hvað sem það kostaði.“

Hann hætti við en átti síðar eftir að stofna Samtökin 78 á heimili sínu.

Hörður segir um viðtalið við Samúel: „Heimur minn voru sömu fjöllin, sama hafið, sama sólin, sama tunglið og tungumálið og allra annarra Íslendinga. En það vantaði stóran kafla í samfélagssáttmálann. Það voru ekki til heiðarleg og skilningsrík orð yfir það sem sem skipti okkur mennina mestu máli; tilfinningar okkar og viðhorf til kynlífs,“ segir Hörður og heldur áfram að lýsa hvernig lífið var áður en hann opinberaði kynhneigð sína og hvernig samfélagið hrakti hann síðan í burtu. Gefum Herði orðið:

„Mín einkenni voru eftirsóttir hæfileikar og ég var önnum kafinn listamaður. Hafði á fjórum árum gefið út tvær hljómplötur sem sigrað höfðu þjóðina og voru leiknar í útvarpi landsmanna nánast daglega. Sjónvarpið hafði meira að segja gert tvo þætti um mig. Ég var eftirsóttur leikstjóri. Ég hafði leikið í tveimur kvikmyndum og það var algjör nýlunda á þessum árum. Ég var semsagt rísandi stjarna á himni listanna. Ég var á forréttindalista margra. Ungur, dýrkaður og dáður. Sem leikhúslistamaður hafði ég brennandi áhuga á samfélagi mínu (eins og ég hef enn). En það sem stóð mér fyrir þrifum var að ég mátti ekki vera ég sjálfur og það var alls staðar reynt að knésetja mig til að kyssa kúgandi hnefa heimskunnar og fáfræðinnar.

 Því hafnaði ég og reis upp og sagði satt frá í viðtalinu. Við það missti ég allt út úr höndunum og næstum því lífið líka. Tvisvar! En ég ákvað að takast á við þetta málefni sem listamaður og leiða það til sigurs. Leiðin var að virkja aðra og það krafðist mikils. Það krafðist nokkurs sem ég átti í miklu mæli og var meira en tilbúinn að gefa frá mér. Þannig hafðist sigurinn. Þá vitiði þið það.“

Árið 1978 lét svo Hörður draum sinn rætast og stofnaði baráttufélag um réttindi okkar samkynhneigðra. Hörður segir: “Það gekk ekki átakalaust fyrir sig en tókst loks á endanum þann 9. maí 1978.”