Hlíðarskóli sigraði skrekk í gær - stemmingin var einstök og mikil samstaða

Úrslit Skrekks, hæfileikahátíðar Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur fór fram í Borgarleikhúsinu í gærkveldi. Átta skólar voru í úrslitunum og voru verðlaun veitt fyrir þrjú efstu sætin. Stemmningin var einstök, gleði og samstaða einkenndi kvöldið bæði hjá keppendum og áhorfendum. 

Úrslitin voru sem hér segir: 

1. sæti Hlíðarskóli með atriðið \"Þið eruð ekki ein\". 

2. sæti Árbæjarskóli með atriðið \"Hindranir hugans\". 

3. sæti Hagaskóli með atriðið \"Eftir 13.000 mistök\". 

Dagur B. Eggertsson afhenti Hlíðarskóla verðlaunagripinn fyrir fyrsta sætið og var gleði vinningshafana fölskvalaus eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. 

24 grunnskólar tóku þátt í Skrekk á þremur undanúrslitakvöldum í liðinni viku og yfir 600  unglingar sýndu sviðsverk sem þau höfðu sjálf samið á stóra sviði Borgarleikhússins.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fagnar 30 ára afmæli þann 20. nóvember og er Skrekkur stærsti viðburðurinn í mánuðinum og tengist sáttmálanum með margvíslegum hætti. Má þar helst nefna að í 13. og 31. grein sáttmálans kemur fram að barn á rétt til að láta í ljós skoðanir sínar skriflega, í formi lista eða eftir hvers kyns öðrum leiðum. Þá á barnið rétt til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum. Reykjavíkurborg stendur að innleiðingu á hugmyndafræði sáttmálans í öllu skóla- og frístundastarfi borgarinnar. 

Dómnefnd úrslitakvöldsins var skipuð stjórnendum menningarhúsa í borginni; Borgarleikhússins, Þjóðleikhússins, Hörpu, Íslenska dansflokksins, ungmenni úr ungmennaráði Samfés en formaður dómnefndar var Sigfríður Björnsdóttir deildarstjóri listfræðslu hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.