Jarðarför sveinbergs breyttist í martröð: neyddust til að jarða föður sinn sjálf - komu að læstri kirkju og lokuðum kirkjugarði - „hvað ef annað fólk lendir í þessu?“

Fátt ristir jafn djúpt og sorgin við að missa þá sem við elskum. Í raun er sorgin ekki ein tilfinning heldur ferli sem tekur tíma að vinna úr. Það er á slíkum stundum, þegar við kveðjum okkar nánustu, að þeir sem syrgja þurfa stuðning og umhyggju, bæði frá okkar nánast fólki og eins þeim sem sjá um útförina.

Það er langur vegur frá því að það hafi verið upplifun Helga Laxdal og fjölskyldu. Eru þau sár, svekkt og reið eftir framkomu og afskiptaleysi þeirra sem komu að jarðarför föður hans en Helgi fylgdi föður sínum til grafar þann 19. október.

„Ég er ennþá í hálfgerðum doða eða sjokk fasa. Þannig að kannski er þetta ekki að valda mér jafn miklu persónulegum hugarangri og öðrum. Ég er eiginlega meira reiður fyrir hönd fjölskyldu og vina,“ segir Helgi í viðtali við Hringbraut.

Allt átti að vera klárt 

Aðdraganda þeirrar stöðu sem upp er komin má rekja til þess að athöfn föður hans fór fram í Svalbarðskirkju á Svalbarðsströnd, heimasveit hans og föður hans heitins. Jarðsetningin sjálf fór fram frá Laufásskirkju í Grýtubakkahreppi, heimasveit móður Helga.

\"\"

Mynd: Helgi Laxdal / Sveinberg Th. Laxdal heitinn faðir Helga

Fyrir útförina hafði Helgi samband við Önnu Maríu Snorradóttur, meðhjálpara Svalbarðskirkju. Hún greindi Helga frá því að hún yrði ekki viðstödd útförina sjálfa en lofaði að hún myndi sjá til þess að allt yrði klárt við komu þeirra í kirkjuna.

„Ég var búinn að hafa samband uppá að taka á móti kistunni deginum fyrir jarðarförina, strax á eftir kistulagningunni sem fór fram í kapellunni á Akureyri. Hún sagði að það yrði allt til reiðu þar, jafnvel þótt hún ætti erindi til Reykjavíkur. Maðurinn hennar myndi sjá til þess að það væri opið í kirkjunni og að kirkjubjöllunum yrði hringt þegar líkkistan kæmi í hús, sem er siður,“ útskýrir Helgi.

Þegar hann mætti svo upp í Svalbarðskirkju var kirkjan ekki opin, enginn var til staðar til þess að taka á móti þeim og kirkjuklukkunum var ekki hringt. Voru það mikil vonbrigði

„Við urðum að hringja í eiginmann meðhjálparans til að koma og opna húsið.“

Runnu tvær grímur á aðstandendur

Eftir að kistunni hafði verið komið fyrir á réttan stað,  var ekkert að gera nema að bíða eftir athöfninni sem færi fram daginn eftir.

„Jarðarfarardaginn sjálfan var ekki búið að ná í mold út í Laufáskirkjugarð fyrir moldunar-seremóníuna í útförinni. Sambýlismaður systur minnar gerði sér þá sérstaka ferð til þess sjálfur en aksturinn er um 10 til 15 mínútur.“

Helgi bætir við að athöfnin í kirkjunni hafi tekist ágætlega. Nú var búið að finna einhvern til að hringja kirkjuklukkunum og ekkert út á frammistöðu prestsins eða annara að setja á þessari stundu. En fleiri áföll áttu eftir að ríða yfir. Þegar komið var út í Laufáskirkjugarð runnu hins vegar tvær grímur á flesta aðstandendurna.

„Í fyrsta lagi var ekki búið að flagga í hálfa stöng, líkt og beðið var um. Hliðið inn á lóðina af þjóðveginum var ennþá lokað og enginn maður var heldur á staðnum,“ segir Helgi. Það var búið að taka gröf en stór grafa sem hafði verið nýtt til verksins stóð enn við gröfina í þeim tilgangi að styðja við og halda palli sem var fyrir grafaropinu. Helgi segir:

„Enn fremur var kirkjan lokuð og læst og rekurnar fyrir kistuna, sem og reipin til þess að láta kistuna síga, voru inni í kirkjunni!“

\"\"

Mynd: Helgi Laxdal / Leiðið eftir að búið var að moka yfir - Sjá má gröfuna og flekann fyrir aftan

Helgi segir blaðamanni að hann hafi í þrígang haft samband við Benedikt Sveinsson, umsjónarmann kirkjugarðsins, fyrir jarðarförina til þess að vera fullviss um að ekkert óvænt kæmi uppá á þessum viðkvæma tíma í lífi aðstandenda.

„Svör voru þau að gröfin yrði tekin og að kirkjan yrði bara opin á jarðarfarardaginn. Reipin og rekurnar væru uppi á lofti undir súð í turninum og við ættum að ná í þetta þar þegar að kæmi,“ segir Helgi og bætir við að útfararstjórinn hafi sem betur fer haft með sér reipi og rekur til vonar og vara. Þannig hafi þau náð að bjarga því sem bjargað varð, án þess að „ónáða“ fleiri.

Aðstandendur þurftu að jarða föður sinn sjálf

Aðstandendur sem viðstaddir voru jarðarförina neyddust því til þess að standa úti í nístandi haustvindi á meðan grafan var fjarlægð ásamt pallinum svo mögulegt yrði að láta kistuna síga ofan í gröfina.

„Athöfnin var kláruð og gekk það svosum ágætlega en ekkert okkar aðstandendanna hafði sál í sér til þess að fara frá gröfinni án þess að vita eitt eða neitt um hvort mokað yrði yfir kistuna þann daginn. Sem betur fer bauðst frændi minn, systursonur pabba, til þess að ganga í verkið.“

Frændinn var með vinnuvélaréttindi og lykillinn var blessunarlega enn í gröfunni.

„Aðstandendur - eða í það minnsta, fulltrúi þeirra - máttu sum sé jarða pabba minn sjálfir,“ segir Helgi og velti fyrir sér hvernig í ósköpunum stæði á þessari hrinu mistaka.

„Ef að það hefði nú ekki verið neinn með vinnuvélaréttindi í hópi syrgjenda eða tilbúinn til þess að færa gröfuna hefðum við þurft að hringja og bíða eftir manni. Blessunarlega blessaðist þetta en þetta er aðallega leiðinlegt. Bæði vegna virðingarleysis í garð hins látna, sem og allra aðstandenda hans.“

\"\"

Mynd: Helgi Laxdal / Mynd frá jarðarfaradeginum 

Nú er liðin rúm vika frá útförinni og hefur hvorki Helgi né einhver annar í fjölskyldunni heyrt stakt orð frá þeim sem sáu um útförina.

„Við erum því að hugsa okkar mál núna, hvort og þá hvað við eigum eiginlega að gera í þessu. Þetta er víst sú þjónusta sem við eigum að vera löngu búin að greiða fyrir með sköttunum okkar, eða er það ekki?“ Spyr Helgi.

Faðir Helga var umdeildur - Hefur vakið grunsemdir

Þá viðurkennir Helgi að faðir hans hafi verið umdeildur maður. Því hafi erfiðleikarnir við útför föður hans vakið með systkinunum grunsemdir um hvað raunverulega hafi átt sér stað.

„Við erum ekki alveg sammála um þetta við systkinin. Persónulega hallast ég að því að þetta sé bara venjulegur íslenskur „þetta reddast“ skussaskapur. En til að hafa forsöguna rétta, þá var pabbi heitinn  umdeildur maður og hann hafði sterka réttlætiskennd. Stundum kannski fullsterka og hann vissi vel ef hann hafði lögin sín megin. Það, ásamt því að hann lét heldur ekkert vaða yfir sig án þess að taka á móti, gerði það að verkum að hann var ekki mjög vinsæll hjá fólki sem kemst áfram með yfirgangi og hnefarétti - hvorki í Grýtubakkahreppi né sinni eigin heimasveit. Ég er eiginlega á báðum áttum hvað þetta varðar. En burt séð frá því og ef ég er að tjá mig fyrir hönd aðstandenda, þá eru þeir margir miður sín og þykir þetta mjög leitt.“

Segir Helgi að systkinin hafi í raun búist við símtali frá þeim aðilum sem ábyrgir voru fyrir mistökunum enn ekkert hefur gerst í þeim efnum. Þykir þeim leitt að hafa ekki heyrt í neinum.

„Ég bjóst svona við því að það yrði kannski hringt í mann og beðist afsökunar. Það var reynt að gera það besta úr þessu og sjá til þess að hlutirnir gengu fyrir sig. Við höfum velt því fyrir okkur hvort við séum að gera úlfalda úr mýflugu en ég er farinn að hallast að því að þetta sé mjög óviðunandi. Ég meina, hvað ef annað fólk lendir í þessu? Pabbi var til dæmis orðinn 77 ára gamall og búinn að lifa ágæta ævi en hvað ef þetta hefði verið fólk sem var að jarða barnið sitt sem lést í bílslysi svo dæmi sé tekið? Ég yrði alveg svakalega reiður ef ég frétti af því. Þetta er ekki boðlegt fyrir syrgjendur, sama hvernig á þetta er litið.“

Helgi tekur það sérstaklega fram að einungis þeir aðilar sem sjá um kirkjurnar tvær sé við að sakast. Allir aðrir sem tóku þátt, svo sem söngvarar, útfararþjónustan og orgelleikari hafi verið til fyrirmyndar.

„Auðvitað væri gott að fá afsökunarbeiðni eða einhverskonar viðurkenningu en það breytir ekki orðnum hlut,“ segir Helgi.

Benedikt og Anna segja málið byggt á misskilning 

Blaðamaður hafði samband við bæði Önnu Maríu, meðhjálpara Svalbarðskirkju og Benedikt Sveinsson umsjónarmann Laufáskirkjugarðs. Þau segja málið byggt á röð óheppilegra atvika og misskilningi. 

Anna María Snorradóttir, meðhjálpari Svalbarðskirkju segir í samtali við Hringbraut að sjálf hafi hún ekki verið heima þegar jarðarförin átti sér stað en að eiginmaður hennar hafi ætlað að taka á móti þeim. Vill hún meina að ættingjar Sveinbergs hefðu komið fyrr án þess að láta hana vita og þess vegna hafi atburðarrásin verið með þessum hætti.

Benedikt Sveinsson sem sér um Laufáskirkjugarð sagði í samtali við blaðamann að  þessi leiðinlegi atburður hafi orðið vegna röð óheppilegra atvika. Segir hann þó ekki vanalegt að hlið kirkjugarðsins sé opið þegar jarðarfarir fari fram heldur að það sé einfaldlega opnað þegar fólk kemur á staðinn.

„Athöfnin var í kyrrþey þannig að það var ekki gert ráð fyrir að þarna yrði fjöldi manns. Þetta hitti þannig á að ég var ekki heima og þurfti að ráða mann til þess að ljúka verkinu. Misskilningur okkar á milli gerði það að verkum að hann var ekki kominn á staðinn en hann kom svo þarna klukkutíma seinna og þá var búið að ganga frá öllu. Við vissum ekki að þetta hefði farið svona því það hringdi enginn í mig,“ segir Benedikt í samtali við Hringbraut.

„ Í raun og veru vissi ég ekki almennilega um þetta fyrr en ég fór að lesa þetta hjá þeim á Facebook. Málið er það að það eru algjörlega mín mistök að hafa ekki ítrekað tímasetninguna við hann. En af því að ég var ekki á staðnum og af því að það var ekki hringt í mig að þá vissi ég ekkert af þessu. Ég hefði geta reddað þessu bara með einu símtali. Ég tek yfirleitt grafirnar þarna í Laufási og meira að segja Grenivík líka og er bara yfirleitt á staðnum og geng frá og geri allt. En það hittist þannig á að ég var ekki heima, þurfti að taka gröfina á miðvikudegi og þar af leiðandi þurfti ég að hafa lokið yfir og gröfuna til þess að halda við lokið en ég skildi nú lyklana eftir svo að það væri nú öruggt að væri hægt að gera hvað sem væri,“ segir hann.

Þá segir hann einnig að engin hefð sé fyrir því að hafa hlið garðsins opið og ekki sé vaninn að starfsmaður sé í kirkjugarðinum á meðan athöfnin fer fram.

„Sérstaklega ekki þegar athöfnin er í kyrrþey, þá er enginn á staðnum. Þetta eru svolítið sérstakar aðstæður. Náttúrulega hundleiðinlegt en eitt símtal hefði breytt öllu.“

Aðspurð hvort þau hafi sjálf haft samband við Helga eða aðra aðstandendur eftir að mistökin áttu sér stað svara þau bæði neitandi.

Þegar blaðamaður ræddi tímasetningar og misskilninginn við Helga sagði hann: 

„Mér þykir sérstakt að heyra að fólk sem hefur lifibrauð sitt af þessu og sinnir þessu þegar til fellur viti ekki almennilega með hvaða tímaramma það er að vinna. Ég minntist á það bæði við Önnu Maríu hvenær kistulagningin byrjaði og eins hvenær ég teldi að við myndum vera á ferðinni. Af okkur tveimur hef ég kannski ekki bestu innsýnina á hve langan tíma svona athafnir taka.

Eins sagði ég við Benedikt hvenær jarðarfaraathöfnin byrjaði og giskaði á tíma sem við myndum vera að mæta þarna út eftir, hann ætti að vita betur með tímaramman en ég. En það er merkilegt að það hafi maður komið þarna klukkutíma síðar því ekki lokaði hann hliðinu inn á bílastæði kirkjunnar sem við skildum eftir viljandi opið til þess að reyna að merkja hvort einhver umgangur hefði verið þarna. Það var ennþá eins og við skildum við það, daginn eftir.“