Helgi hættur á facebook – ragnar á hótel adam óskaði eftir heimilisfangi blaðamanns

Helgi Helgason varaformaður Íslensku þjóðfylkingarinnar hefur lokað Facebook-síðu sinni. Helgi fór hamförum á Facebook í kjölfar þess að Stundin birti grein um námskeið í vopnaburði sem átti að fara fram á Grand Hotel í gær. Í greininni á Stundinni er fullyrt að Helgi Helgason sé meðlimur útibús ESA á Íslandi.

Sjá einnig: Helgi froðufellandi af reiði

Helgi birti fyrst mynd af Reyni Traustasyni og uppnefndi hann eiturlyfjasmyglara og Stundina kallaði hann sorprit. Hringbraut ræddi fyrr í dag við Reyni Traustason þar sem hann sagði um Helga:

„Helgi er sú manngerð sem ég vil helst heyra last um mig frá.“ Þá sagði Reynir einnig:

„Til gamans má geta þess að umrætt eiturlyfjasmygl átti sér stað fyrir opnum tjöldum og var til að sýna hve auðvelt væri að smygla efnum til landsins.“

 Árið 2005 var Reynir að vinna að heimildarmynd og var með örlítið magn fíkniefna á sér, enn innihaldið var að mestu sápa. Afhenti Reynir sjálfur tollverði efnið en hann vildi með þessu sýna hversu auðvelt það er að smygla eiturlyfjum til landsins. Var Reynir ekki kærður fyrir þetta.

Blaðamanni hótað?

Síðar um daginn birti Helgi mynd af blaðakonu Stundarinnar sem skrifaði greinina. Þar skrifaði Helgi:

„Þetta er blaðamaðurinn sem er skrifaður fyrir fréttinni á Stundinni þar sem logið er upp á mig að hætti góða fólksins. Ung stúlka sem hefur lent í slæmum félagsskap á Stundinni. Reyndi fyrir sér í listnámi en sennilega hefur það ekki gengið. Sorglegt. Hún er væntanlega undir miklum áhrifum frá gamla eiturlyfjasmyglaranum en ég man ekki betur en hann hafi lýst því yfir hér á árum áður að hann hafi fundið sannleikann.“ Helgi segir síðan að blaðamaðurinn sé blautur á bak við eyrun og óþverri.

 Fljótlega eftir að varaformaður þjóðfylkingarinnar birti skjáskotið skrifaði Ragnar Guðmundsson undir myndina: „Vantar heimilisfang blaðakjánans.“ Ragnar þessi rak um tíma Hótel Adam á Skólavörðustíg. Hótel Adam er ekki starfrækt lengur en Ragnar komst oft í fréttir vegna hinna ýmsu hneykslismála tengt hótelinu. Hann varaði til dæmis gesti sína við kranavatni hótelsins en benti þeim þess í stað á að kaupa vatnsflöskur á 400 krónur sem hann seldi sjálfur. Þá sagði einn starfsmaður frá því að hann hefði verið látinn sofa í sama rúmi og Ragnar. Ragnar var dæmdur til að greiða þeim starfsmanni 3 milljónir vegna vangoldinna launa.

Ekki náðist í Ragnar við vinnslu fréttarinnar en þeir sem sáu ummæli hans undir myndinni túlkuðu margir það sem svo að Ragnar væri þarna að hóta blaðamanninum sem vann fréttina. Helgi Helgason hefur nú síðan lokað Facebook-síðu sinni eftir að hafa birt tvær myndir og níðskrif um starfsfólk Stundarinnar.