Hannes með ríkisábyrgð á kreditkortinu?

Þór Sarri, fyrrum þingmaður, segir að Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við HÍ og einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins, hafi einn Íslendinga verið með ríkisábyrgð á kreditkorti sínu.

Þetta kemur fram í ummælum sem Þór lætur falla á facebook.

“Þegar ég var ráðinn til Lánasýslu ríkisins hér um árið til að koma skikki á ríkisábyrgðir á lánum sem voru að hluta sveipaðar hulu, kom í ljós að Hannes var með ríkisábyrgð á kreditkortinu sínu, einn íslendinga,” skrifar Þór.

Hringbraut hefur sent Hannesi Hólmsteini fyrirspurn þar sem falast er eftir viðbrögðum, hvort hann staðfesti orð Þórs.

Þór lét ummælin sín falla vegna pistils á Hringbraut um samtryggingu þeirra sem gagnrýna ríkisafskipti og ríkisítök en njóta þó launa og greiðslna sjálfir frá hinu sama ríki og þeir gagnrýna.

Í kjölfar ummæla Þórs Saari sem virðast alvarleg hefur verið spurt hvort hann kunni að vera að grínast. Þór harðneitar því og bendir á að um þetta hafi verið fjallað: \"Nei þetta er ekkert grín,\" segir Þór Saari.

Þór ssegir skoðun sýna að 8. janúar 2004 hafi verið fjallað um það í fréttum Stöðvar 2 að Hannes Hólmsteinn var þá með ríkisábyrgð á kreditkorti sínu á u.þ.b. 8000 dali. Var það vegna fjárhagsvanda sem hann hafi skapað sér. Hannes hafi þá afgreitt spurningu fréttamanns að þetta væri mjög eðlilegt en hann væri fyrst að vita af ábyrgðinni þá.