Hætt að vera stillt og góð!

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að fjallað verði um skipan hæstaréttardóma í Allsherjarnefnd og á Alþingi. Ekki sé óhugsandi að þingheimur og innanríkisráðherra muni hlutast til um að Ingveldur Einarsdóttir verði skipuð hæstaréttardómari í stað Karls Axelssonar eins og til hefur staðið. Þetta kom fram í þættinum Vikulokin á Rás eitt í dag.

Ólöf Norðdal innanríkisráðherra þarf ekki að staðfesta niðurstöðu dómnefndar sem valdi Karl. Hún getur nýtt sér ákvæði í lögum til að gera annað en nefndin leggur til, en þarf meirihluta þings til stuðnings slíkri íhlutun.

Unnur Brá sagði í Vikulokunum að hún vildi málið á dagskrá Alþingis að lokinni kjördæmaviku. Ef Hæstirréttur telji ekki rétt að líta til jafnréttislaga þurfi einfaldlega að bæta því inn í lögin. Hún hafi ekki verið talsmaður kynjakvóta fram að þessu en nú telji hún rétt að skoða róttækari úrræði en fyrr, m.a. í ljósi hins umdeilda Hæstaréttarmáls.

„Ég er alin upp í lagadeildinni – alin upp við að treysta dómstólum og kerfinu,“ sagði Unnur Brá.

„Er það ekki glatað uppeldi að treysta bara kerfinu?“ Spurði þá Helgi Seljan.

Unnur Brá viðurkenndi að svo væri, hlutir hefðu breyst. \"Við vorum stilltar og góðar.“  Nú sæi hún hve óþolandi það væri að sjö ára dóttir hennar hefði enga möguleika á að verða hæstarréttardómari vegna karlægrar hugsunar í kringum réttinn sem nánast útlokaði konur.

Einnig kom fram í viðtali Helga við Ragnhildi Helgadóttur sem hefur skrifað grein um málið að fjölbreytni við æðstu dómstóla væri mikilvæg. Allir verði að geta speglað sig í valdhöfum auk þess tákræna gildi sem fylgi fjölbreytileika.