Guðrún ósk: hræsnin sem fyllti kommentakerfi dv - „með því að kaupa kjöt ertu að borga fyrir að dýr sé drepið á hrottalegan hátt í sláturhúsi“

Mynd: Dv.is/Guðrún Ósk Guðjónsdóttir

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir blaðakona hjá DV tók nýlega viðtal við ungan mann, Hjörvar, sem stundar veiðar á afrískum dýrum. Í kjölfar greinarinnar logaði kommentakerfi DV af ljótum ummælum og morðhótunum í garð Hjörvars.

Í leiðara DV í blaðinu í dag veltir Guðrún Ósk fyrir sér hræsninni sem fyllti kommentakerfið.

„Ég skil það vissulega að fólk sé reitt yfir því að Hjörvar drepi dýr. Það sem mér þykir sérstaklega athyglisvert er að flestir þeirra sem hóta honum öllu illu og óska honum dauða, er sama fólk og borgar öðrum fyrir að slátra dýrum fyrir sig,“ segir Guðrún í leiðaranum.

Þá spyr hún lesendur hvort að nú sé ekki tilvalinn tími til þess að líta í eigin barm.

„Ef þér býður við að sjá myndina af Hjörvari með gíraffanum, af hverju býður þér ekki við því að við drepum lömb, bara vegna þess að okkur finnst þau góð á bragðið?“

Guðrún Ósk segist sjálf vera vegan og neytir hún engra dýraafurða. Þá segist hún vera á móti slíkum veiðum en hún hafi ákveðið að taka viðtalið vegna forvitni sinnar á málinu og vegna þess að blaðamennska snúist ekki eingöngu út á það að taka viðtal við fólk sem það er sammála.

„Mig langaði að vita af hverju Hjörvar gerir það sem hann gerir. Þar sem það er óskiljanlegt fyrir mér, þá langaði mig að vita hvað sé heillandi við að drepa dýr. Ef dýr er drepið á bak við luktar dyr og enginn er þar til að taka mynd, gerðist það? Með því að kaupa kjöt ertu að borga fyrir að dýr sé drepið á hrottalegan hátt í sláturhúsi,“ segir Guðrún og viðurkennir hún fordæmingu sína á gjörðum Hjörvars.

„Þið hin, sem fyrirlítið  Hjörvar, kallið hann ógeðslegan og hótið honum öllu illu, ef þið borðið kjöt þá bið ég ykkur um að spyrja ykkur að þessu: Af hverju eruð þið svona mikið betri en Hjörvar?“