Gjaldþrot wow air hafði mestu áhrif á fækkun skiptifarþega - kortavelta ferðamanna jókst umtalsvert í júní

Undanfarið hefur verið mikil umfjöllun um fækkun ferðamanna á Íslandi, sérstaklega eftir að WOW air varð gjaldþrota. Tölur sem Isavia sendi frá sér mánuðina eftir gjaldþrot WOW air sýndu að fækkun ferðamanna var í tugum prósenta.

Þegar tölurnar eru skoðaðar ítarlega kemur í ljós að lang stærsti hluti fækkunarinnar er hins vegar á ferðamönnum sem eingöngu millilenda á landinu. Á fyrstu sex mánuðum 2018 fóru 1.668.229 skiptifarþegar um flugvöllinn en á fyrstu sex mánuðum 2019 fóru 1.039.851 skiptifarþegar um Keflavíkurflugvöll. Samsvarar það um 38 prósenta fækkun.

Heildarfjöldi ferðamanna sem stigu inn í landið fyrstu sex mánuði árið 2018 voru 1.348.225, en fyrstu sex mánuði ársins 2019 fækkaði þeim niðri í 1.220.727. Samsvarar það um 10 prósenta fækkun.

Sé eingöngu skoðaðir þeir þrír mánuðir eftir fall WOW air hækkar prósentuhlutfallið eingöngu lítillega. Frá Apríl til Júní 2018 komu 739.105 ferðamenn inn í landið en á sama tímabili árið 2019 komu 638.880. Samsvarar það um 15 prósenta fækkun. 

Þrátt fyrir þessa 15 prósenta fækkun var kortavelta ferðamanna hér á landi í júní meiri en á sama tíma árið 2018. Aukning í dagvöruverslun í júní í ár nam 26 prósentum miðað við júní í fyrra. Alls nam aukningin um 20 prósentum í verslun. Ferðamenn eyddu sömuleiðis um 10 prósenti meira í bensín heldur en á sama tíma í fyrra.  Lítils háttar samdráttur var í gistiþjónustu og bílaleigu. Svo virðist sem að þeir ferðamenn sem koma til landsins séu tilbúnir að eyða meira en áður, ásamt því að gengi krónurnar getur haft möguleg áhrif á kaupgetu ferðamanna hér á landi.