Gervifrjálslyndi og vaxandi óþol fyrir skoðunum annarra

Á dögunum kom út bókin Lög og landsmál eftir Arnar Þór Jónsson héraðsdómara, en hann er gestur Björns Jóns Bragasonar í þættinum Sögu & samfélagi á Hringbraut í kvöld kl. 21.30. Arnar Þór er einn fárrra íslenskra dómara sem tekið hefur virkan þátt í samfélagsumræðunni og stundum orðið fyrir gagnrýni fyrir vikið af hálfu annarra dómara og lögmanna. Hann bendir á að í ýmsum nágrannalanda okkar láti dómarar til sín taka í umræðum, meira að segja sé einn danskur dómari með bloggsíðu. Í raun snúist þetta um grundvallarmannréttindi, en Arnar Þór segir meðal annars í viðtalinu:

„Í prinsippinu þá hef ég ennþá tjáningarfrelsi. Ég afsalaði mér ekki mannréttindum þegar ég tók við þessu starfi og ég tel mikilvægt – ábyrgðarhluta – að hér sé haldið uppi lifandi umræðu um lýðræði, lýðveldi, réttarríki, tjáningarfrelsi og svo framvegis. Ég held að við þurfum á öllum okkar styrk að halda til að viðhalda þessu og ef að ég get lagt þeirri umræðu eitthvert lið þá vil ég gera það. Það kann vel að vera að menn segi þetta vera óeðlilegt, og að kollegar mínir í dómarastétt eða lögmenn vilji jafnvel amast við þessu eða telji þetta óeðlilegt, en lýðveldi rekur sig ekki sjálft, lýðræði viðheldur sér ekki sjálft og til þess að þetta geti gengið þá þurfum við á upplýstum borgurum að halda. Þessi bók er mitt framlag til umræðu. Hún skrifuð þannig að hver og einn borgari geti lesið hana. Alræðisríki og einræðisríki þurfa ekki á upplýstum borgurum að halda heldur þvert á móti. Þar vilja stjórnvöld bara þæga þegna sem hlýða og spyrja engra spurninga. Frjálslynd lýðræðishefð gengur ekki út á slíkt heldur að við eigum rökræðu, hlustum á hvert annað, berum virðingu fyrir hverju öðru, en hún gengur ekki út að við teljum okkur hafa höndlað sannleikann, við séum dónaleg, og að við sýnum hvert öðru hroka.“

Arnari Þór er tíðrætt um hugtakið í frjálslyndi í bókinni, en í okkar samtíma gæti aukinnar tvíhyggju og óþoli fyrir skoðunum anarra:

„Ef að við krefjum aðra um umburðarlyndi, sem er kannski allt í lag, þá hljótum við með sama hætti að vera tilbúin til að sýna öðrum umburðarlyndi. Frjálslyndi byggir á virðingu og gagnkvæmni. Það sem ég hef áhyggjur af – og ég held ég sé ekki einn í því – er að mér sýnist á ýmsu í pólitískri orðræðu – og þá er ég ekki bara að tala um pólitíkusa – að þá sýnist mér margt bera keim af gervifrjálslyndi og óþoli fyrir skoðunum annnarra.“

Arnar kveðst líka lengi hafa haft áhyggjur af því að lögin séu að verða of flókin í okkar samtíma:

„Löggjöf í síauknum mæli kemur utan frá og umræðan um þriðja orkupakkann – því miður – opinberaði það – það komu fram sérfræðingar í Evrópurétti sem sögðu það beinlínis í fjölmiðlum að Íslendingar væru farþegar í þesssari lest en hafa ekki möguleika á að vera inni í stjórnklefanum og hafa ekki einu sinni aðgang að neyðarhemlum.“

Saga & samfélag var sýnt í kvöld á Hringbraut kl. 21.30.