Fyrrverandi starfsmaður isavia ákærður fyrir að taka á móti milljónum í mútur - krefjast 12 milljóna króna í skaðabætur

Héraðssaksóknari hefur ákært fyrrverandi starfsmann Isavia fyrir mútuþægni og umboðssvik. Starfaði hann sem þjónustustjóri hjá Isavia og er hann sagður hafa þegið allt að 3,5 milljónum króna í mútur frá íslensku tæknifyrirtæki. Eru múturnar sagðar hafa verið greiddar í tengslum við kaup Isavia á miðum í bílastæðahlið fyrir nokkrum árum. Framkvæmdastjóri tæknifyrirtækis sem seldi Isavia miðana hefur einnig verið ákærður af Héraðssaksóknara. Er tæknifyrirtækið sagst hafa hagnast um allt að 4,5 milljónir króna á meintum viðskiptum. Isavia hefur krafist tólf milljóna króna í skaðabætur vegna málsins. RÚV greinir frá þessu.
 
Samkvæmt ákærunni hafði Isavia borist upplýsingar um brotin frá fyrrverandi starfsmanni tæknifyrirtækisins.  Héraðssaksóknari segir í greinargerð með ákærunni að uppljóstrarinn hafi átt ýmsum samskiptum við þjónustustjórann hjá Isavia um miðakaupin og haft vitneskju um brotin.
 

Í ákærunni er meðal annars sagt að Isavia hafi hætt viðskiptum við norskt félag um kaup á bílastæðamiðum og í staðinn keypt þjónustu af íslenska tæknifyrirtækinu, þar sem þjónustustjórinn hafi ákveðið það, þar sem hann var yfir bílastæðamálum á Keflavíkurflugvelli. Tekið er sérstaklega fram í ákærunni að verð íslenska fyrirtækisins hafi verið miklu hærra en Isavia greiddi norska fyrirtækinu. Hafi þjónustustjórinn og framkvæmdastjóri tæknifyrirtækisins gert með sér samkomulag um að skipta ávinningnum á milli sín.

Í ákærunni segir einnig að greiðslur tæknifyrirtækisins til þjónustustjórans hafi verið skráðar sem ráðgjöf, en héraðssaksóknari telur að þær hafi ekki byggst á neinum raunverulegum viðskiptum heldur einungis verið yfirvarp fyrir mútugreiðslur. Ákæran mun verða þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í byrjun desember.