Framtíðar forystumaður vill uppgjör og hreina íhaldsstefnu

Vefsíðan Viljinn birti fyrr í vikunni viðtal við Elliða Vignisson bæjarstjóra í tilefni átakanna í Sjálfstæðisflokknum. Bæjarstjórinn ræðir þar um gamla skiptingu flokksins milli tveggja hugmyndaheima, íhaldsstefnu og frjálslyndis.  

Ritstjóri Viljans telur Elliða eina af vonarstjörnum flokksins og framtíðar forystumann. Í því ljósi er greiningin á vanda Sjálfstæðisflokksins einkar áhugaverð. Hann horfir á hugmyndafræðilegan vanda meðan aðrir sjá bara persónuleg átök.

Krossgötur Sjálfstæðisflokksins

Elliði telur að Sjálfstæðisflokkurinn standi nú á krossgötum. Hann segir fullum fetum að frjálslyndir kjósendur hafi fundið „tærari rödd“ í Viðreisn og Pírötum. Á hinn bóginn er það hans mat að Miðflokkurinn tali skýrar inn í hóp íhaldssamra kjósenda en sjálfstæðismenn hafi gert til þessa.

Það er svo afar markverð niðurstaða hjá Elliða að hann telur að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að hætta að tala inn í hóp frjálslyndra því að þeir muni aldrei kjósa hann. Þessi í stað eigi flokkurinn að einbeita sér að því að tala fyrir þær hugsjónir sem aldrei verði vikið frá eins og hann orðar það.

Skilgreining Elliða á eðli innri markaðarins

Á heimasíðu sinni ræðir Elliði Vignisson einnig um eðli EES- samningsins sem veitir Íslandi aðild að innri markaði Evrópusambandsins og leggur á okkur þær skyldur að innleiða þær reglur sem þar eru settar. En átökin í flokknum nú snúast fyrst og fremst um hugmyndafræðina sem innri markaðurinn  byggir á.

Elliði hafnar því að um viðskiptasamning sé að ræða og telur að hugtakið samstarfssamningur, sem utanríkisráðuneytið noti, sé einnig villandi. Að hans mati væri réttara að nota hugtakið sambandssamningur. Það er athyglisvert því að samningurinn um fullveldi Íslands frá 1918 hafði einmitt það nafn.

Skilgreining Elliða er ekki fjarri lagi. Aukaaðild væri einnig réttnefni. Þessi greining skýrir ágætlega hvers vegna samningur um fulla aðild yrði minna skref en samningurinn um aðild að innri markaðnum var á sínum tíma.

Íhaldsmenn sér og frjálslyndir sér

Elliði bendir á það í viðtalinu við Viljann að víða eru íhaldsmenn sér í flokki og frjálslyndir sér. Í Danmörku til að mynda voru íhaldsmenn lengi stærri en frjálslyndir, sem kalla sig reyndar Vinsti, en það hefur nú breyst. Á Bretlandi og á Evrópuþinginu eru frjálslyndir flokkar nú  í umtalsverðri sókn.

Ugglaust er það rétt hjá Elliða að senn er komið að því að Sjálfstæðisflokkurinn horfist í augu við slíka skiptingu.  Spurningin er fremur um hitt hversu hratt hlutirnir gerast. Margt frjálslynt fólk er þegar farið.

Þeir fá að blóta á laun sem það vilja

En frjálslynt fólk finnst enn í forystu Sjálfstæðisflokksins. Margt af því vill varðveita þá gömlu ímynd að þessir tveir hugmyndaheimar rúmist undir einni regnhlíf. Það er því alveg eins líklegt að í stað skyndi aðgerða til að losna við þá sem eftir eru í frjálslynda arminum verði byrjað á sáttatilraunum.

En ef til vill falla mál þó bara á ný í farveg síðustu tuttugu ára. Það þýðir að reynt verður að draga fjöður yfir þennan hugmyndafræðilega ágreining með því einfaldlega að hætta aftur öllu tali um gildi aðildar Íslands að innri markaði Evrópusambandsins. Þeir fá þó væntanlega að blóta hinn bannfærða sið á laun sem það kjósa.

Þegar öllu er á botninn hvolft er því sennilegt að það gangi eftir sem Elliði Vignisson er í raun að segja að nýir frjálslyndir flokkar muni smám saman blómstra á miðjunni og Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn bítast um fylgi íhaldssamra kjósenda yst á hægri vængnum.