Fordæmalaus valdníðsla af hálfu más

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja segir að forkólfar Seðlabanka Íslands hafi ætlað sér með öllum ráðum að leggja Samherja að velli og virt þar að vettugi tilmæli og álit Sérstaks saksóknara og Skattrannsóknarstjóra sem öll voru Samherja í vil.

Hann var gestur frétta- og umræðuþáttarins 21 á Hringbraut í gærkvöld, en þáttinn má nú nálgast á vef stöðvarinnar undir flipanum sjónvarp, auk þess sem hann verður endursýndur á stöðinni í dag og um helgina. Þar fer Þorsteinn vægast sagt afar hörðum orðum um Má Guðmundsson, Seðlabankastjóra og aðra forystumenn bankans sem hann segir að hafi ekki þolað að vera gerðir ítrekað afturreka í málinu, sem byggðist á þeim óljósa grun að Samherji hefði brotið gjaldeyrisreglur í viðskiptum sínum á meginlandi Evrópu; varla sé til annað dæmi um viðlíka valdníðslu að hálfu svo valdamikils manns í samfélaginu og aðför Más og hans fólks að Samherja og öllu starfsfólki þess, eins og Þorsteinn orðar það.

Hann fer mikinn í viðtalinu og talar þar enga tæpitungu. Málið hafi enda valdið fyrirtæki hans miklum og langvarandi skaða sem enn sjái ekki fyrir endann á, jafnvel þótt Hæstiréttur landsins hafi nú loksins hreinsað Samherja af innistæðulausum ávirðingum Seðlabanka Íslands sem hófust með húsleit \"í beinni með fullum atbeina RÚV\" í marslok 2012 - og hafi á endanum snúist upp í persónuleg aðför og þráhyggju eins valdamesta manns landsins í garð saklauss fólks sem skilaði öllu sínu til landsins á sínum tíma - og raunar rúmlega það.

Fréttaþátturinn 21 er sem fyrr segir endursýndur í dag og um helgina og einnig aðgengilegur á vefnum hringbraut.is hér.