Ólafur úitlokar ekki framboð á ný

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands segist enn ekki hafa ákveðið hvort hann muni bjóða sig aftur fram til embættis forseta eftir nærri 20 ára setu, en segist bæði hafa fengið áskoranir um að halda áfram og að hætta og láta öðrum eftir sviðið.

Í viðtali við Sölva Tryggvason í þættinum Fólk og frumkvæði sem birtist á Hringbraut í gærkvöld svaraði hann jafnframt gagnrýni sem hann fékk á sig fyrir að mæta ekki í forsetaafmæli Vigdísar Finnbogadóttur. Hann sagðist einfaldlega ekki hafa viljað taka neina athygli af Vígdísi, enda tilefnið ætlað henni, auk þess sem ekki hafi verið sérstaklega gert ráð fyrir því að hann væri á staðnum.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands segir söguna hafa sýnt að bölsýnisspár þeirra sem harðast hafi barist gegn því að forseti setji lög í þjóðaratkvæði hafi alls ekki reynst á rökum réttar. Hann líti svo á að meirihluti þjóðarinnar vilji að málskotsréttur forseta haldi sér.

Í viðtalinu segir Ólafur einnig að í litlu samfélagi eins og Íslandi finni fólk meira fyrir misskiptingu en annars staðar. Þó að staðan hér sé betri en víðast annars staðar getum við alltaf gert betur í að skipta gæðum jafnar. 

Þáttinn og klippur úr þætti er hægt að horfa á með því að smella hér.