Flóð frambjóðenda hefur gjaldfellt embætti forseta Íslands. Þetta sagði Svavar Gestsson, fyrrum ritstjóri og stjórnmálamaður í þættinum Ritstjórarnir sem sýndur var á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöld.
Svavar sagði að nánast væri sú staða uppi að tveir nýir frambjóðendur væru kynntir í hverjum fréttatíma. Hann sagðist vita til þess að \"alvöru fólk\" sem hefði velt fyrir sér framboði hikaði nú við að fara fram vegna stöðunnar sem uppi væri. Margir virtust í því einu að leita sér að þægilegri innivinnu.
Jón Sigurðsson, fyrrum ritstjóri og stjórnmálamaður, var einnig í þættinum sem Sigmundur Ernir Rúnarsson stýrði. Jón telur ekki ólíklegt að Ólafur Ragnar Grímsson sé að fylgjast með stöðunni, ekki sé ólíklegt að hann stígi fram eða láti einhvern stíga fram til að skora á sig og taki eitt kjörtímabil enn.
Um ákall um sterkan leiðtoga á Bessastöðum voru viðmælendur sammála um að það væri varasöm krafa, lýðræðið kynni að vera í hættu ef krafa um leiðtoga eins og Donald Trump kæmi fram hér á landi.
Alla sjónvarpsþætti Hringbrautar má nálgast á vefnum hringbraut.is skömmu eftir frumsýningu hvers þáttar.