Fjölskyldurnar verða ekki sendar úr landi – „öryggi þeirra og framtíð er tryggð“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra breytti í gær reglugerð um út­lendinga. Reglugerðin, sem þegar hefur tekið gildi, veitir Út­lendinga­stofnun heimild, á grundvelli sérstakrar beiðni eða að eigin frumkvæði, til að taka til efnis­legrar með­ferðar mál barna sem hlotið hafa vernd í öðru ríki ef það eru meira en tíu mánuðir liðnir frá því að um­sókn þeirra barst ís­lenskum stjórn­völdum. Mál tveggja afgangskra fjölskyldna sem hafa verið í fréttum undanfarið falla undir reglugerðina.

Vísir greinir frá.

Mál hinna afgönsku Safari og Sarwary fjölskyldna hafa vakið athygli undanfarið, en vísa átti þeim báðum úr landi. Fjöldi undirskriftasafnana og mótmæla virðast hafa hjálpað til og eftir breytinguna á reglugerðinni er það nú ljóst að fjölskyldurnar verða ekki sendar úr landi.

Þetta staðfestir Magnús D. Norðdahl, lögmaður fjölskyldnanna. Sema Erla Serdar, stofnandi Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, er ánægð með ákvörðunina og segir um börnin fjögur sem fá nú vernd hér á landi: „Öryggi þeirra og framtíð er tryggð.“