Fjöldi aldraðra rétt skrimtir

Mikil neyð og kvíði er á meðal margra eldri borgara í landinu sem hafa ekki nema örfáa tugi þúsunda til að komast í gegnum mánuðinn og má þar ekkert út af bregða svo skuldir safnist ekki upp eða leita verður til barna sinna eftir aðstoð. 
 
Þetta kom fram á RÚV í gærkvöld, en þar var rætt við 

Matthildi Jóhannsdóttur, sem er 74 ára og býr í þjónustuíbúð fyrir aldraða í Grafarvogi. Áður fyrr vann hún við aðhlynningu, símavörslu, ýmis skrifstofustörf og söng auk þess að á skemmtunum. Nú á hún á um 40 þúsund krónur afgangs á mánuði þegar hún er búin að borga húsaleigu, hita og rafmagn. Hún þarf að láta þessa peninga duga til að kaupa lyf og mat út mánuðinn.

 

\"Ég reyni að láta þetta duga mér, þannig að ég reyni að skipta peningnum upp vikulega til þess að hann dugi. Svo ef að það kemur eitthvað óvænt upp þá verð ég bara að grípa til vísa eða fá lánað einhvers staðar,“ sagði Matthildur í samtali við RÚV og bætti við: \"Það er bókstaflega ekkert eftir. Við erum alveg að gefast upp. Maður svona rétt skríður þetta einhvern veginn áfram en svo kemur náttúrlega að því að það verður bara stopp. Við getum ekki meira.“

Matthildur vandar þingmönnum ekki kveðjurnar: \"Ég held svei mér stundum að þeir séu bara heyrnarlausir þarna niðri á Alþingi. Þeir vita ekkert hvað þetta er ömurlegt að búa við þetta. Við erum að tala um síðustu sporin okkar. Við erum búin að þræla alla okkar hunds- og kattartíð og ég vil bara að þetta verði lagað og að við fáum bara að vera eins og annað fólk.“

Hún segist oft hugsa hvernig hún eigi að hafa þetta af: \"Stundum brotna ég bara niður því ég veit ekkert hvernig ég á að komast í gegnum þetta allt saman. Við getum ekki farið í verkfall. Við getum ekki unnið. Við getum ekki gert neitt,“ sagði hún í samtali við RÚV í kvöld.