Fastir pennar fréttablaðsins og 3. orkupakkinn

Mikill munur er á því sem segir í föstum skoðanadálkum Morgunblaðsins og Fréttablaðsinsum 3. orkupakkann. Ég hallast á sveif með þeim skrifa í Fréttablaðið og vitna til marks um það í tvo þeirra.

Davíð Þorláksson, lögfræðingur og fyrrv. formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, skrifar bakþanka í dag (21. nóvember) og segir: 

„Eins drepleiðinlegt og það kann að hljóma þá kemst enginn upplýstur kjósandi hjá því að setja sig aðeins inn í þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem Ísland þarf að innleiða vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Til að einfalda þér lífið þá er þetta það sem þú þarft að vita: Þriðji orkupakkinn mun ekki hafa nein áhrif á almenning á Íslandi, felur ekki í sér framsal á forræði yfir auðlindum, felur ekki í sér framsal valds til ESB og skyldar okkur ekki til að leggja sæstreng. Samt er þessu öllu haldið fram í umræðunni.

Það var gæfuspor að ákveðið var að orkumál yrðu hluti af EES. Fyrsti og annar orkupakkinn hafa fært okkur grundvöll fyrir markað og samkeppni í framleiðslu og sölu á rafmagni. Enda ættu ekki önnur lögmál að gilda um rafmagn en aðrar neysluvörur. Samkeppni lækkar verð og bætir þjónustu. En af hverju er þá þessi hiti út af orkupakkanum? Sumir virðast nota hann sem tylliástæðu til þess að skapa umræðu um útgöngu Íslands úr EES án þess að segja það berum orðum. Og skyldi engan undra enda er vandséð að mikill stuðningur væri við það.

Innganga Íslands í EES er það besta sem hefur komið fyrir Ísland í mjög langan tíma. Útflutningsfyrirtækin, sem eru grundvöllur lífsgæða okkar allra, hafa í gegnum EES aðgang að innri markaði Evrópu. Það er því mikilvægt að ríkið innleiði orkupakkann og standi vörð um veru Íslands í EES en láti það ekki gerast að okkur verði laumað út bakdyramegin“.

Hörður Ægisson viðskiptaritstjóri  segir í leiðara föstudaginn 16. nóvember:

„EES-samningurinn, sem er vissulega ekki fullkominn, er mikilvægasti alþjóðasamningur Íslands. Sú skoðun hefur hingað til verið nokkuð óumdeild. Það er ábyrgðarhlutur, sérstaklega hjá þeim þingmönnum sem ættu að minnsta kosti að vita betur, að standa fyrir þeirri umræðu sem við höfum orðið vitni að, þar sem röngum upplýsingum hefur vísvitandi verið haldið að almenningi. Ef hinn raunverulegi tilgangur með þessu rugli er að setja af stað atburðarás sem felur í sér að Ísland segi sig að lokum frá EES-samningnum þá eiga menn bara að gangast við því. Það er kominn tími til að lyfta þessari umræðu á aðeins hærra plan.“