Eygló slæst við sjálfstæðisflokk

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segist hafa þurft að slást við Sjálfstæðisflokkinn allt kjörtímabilið, en ráðherrar samstarfsflokksins, segir hún hafa lagst gegn framgangi hennar mála. Þetta kom fram í viðtali við Eygló á Rás 2 fyrr í dag.

Eygló skrifaði grein í Fréttablaðið í dag þar sem hún segir meðal annars: „Vaxtabætur lækkuðu um 25 prósent á árinu 2015 og þeim sem fá þær fækkaði um 21prósent. Sömuleiðis fækkar þeim sem fá barnabætur greiddar. Í fjármálaáætlun fjármálaráðherra til næstu fimm ára er boðað að draga eigi enn frekar úr barnabótum og vaxtabótum. Slík forgangsröðun fjármálaráðuneytisins var ástæða þess að ég setti alvarlega fyrirvara við þessa áætlun þegar hún var samþykkt í ríkisstjórn.“

Með þetta er Eygló mjög ósátt. Hún lýsti átökum innan ríkisstjórnarinnar. „Á þessu kjörtímabili hef ég lagt áherslu á að auka stuðning við fjölskyldur. Því hef ég barist fyrir því að húsnæðisstuðningur í gegnum húsaleigu- og vaxtabótakerfi, yrði sameinaður í eitt húsnæðisbótakerfi þar sem byggt yrði á efnahag fjölskyldunnar frekar en að umbuna þeim sem geta tekið sem hæst lán líkt og vaxtabótakerfið gerir. Því miður náðist ekki samstaða um það og lög um nýtt húsnæðisbótakerfi sem taka gildi um áramótin taka aðeins til leigjenda en ekki allra heimila. Þar er þó stuðningur við fjölskyldur með lágar og meðaltekjur aukinn verulega,“ stendur í grein Eyglóar.

„Ísland á að vera fjölskylduvænt samfélag þar sem veita á fólki sanngjarnan stuðning, en ekki þvinga það til skuldsetningar.“