Evrópuklofningurinn í sjálfstæðisflokknum og íhaldsflokknum

Það er ekki einfalt að bera saman pólitík í stórum og smáum ríkjum. En framhjá því verður ekki horft að klofningurinn sem nú birtist svo skýrt í Sjálfstæðisflokknum í Evrópumálum er um margt eins og spegilmynd af klofningnum í breska Íhaldsflokknum. En eins og sakir standa eru það samt ólíkir vængir sem hafa undirtökin í flokkunum tveimur.

Þetta eru átök um hugmyndafræði. Ágreiningsefnið er hvorki meira né minna en sjálft fullveldið. Spurningin snýst um það hvort fjölþjóðasamstarf veiki eða styrki fullveldi ríkja. Svörin koma fram í ólíkri sýn á samstarf Evrópuþjóða.

Þöggunarstefnan

Fyrir nokkrum árum ákvað breski Íhaldsflokkurinn að yfirgefa samtök hófsamra hægri flokka í Evrópu og tengjast þess í stað samtökum afturhaldssamari hægri flokka. Þetta var gert til að friða Evrópusambands andstæðinga í flokknum. Sjálfstæðisflokkurinn fylgdi jafnharðan í kjölfarið. Þessi breyting hefur haft merkjanleg áhrif á stefnu flokksins og meðal annars komið fram í afstöðu hans til dómstóla.

Kjarni málsins er sá að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í fulla tvo áratugi endurómað orðræðu Brexit-arms Íhaldsflokksins. Af þeirri ástæðu var öll umræða um aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins þögguð niður á vettvangi flokksins. Á endanum náði sú þöggunarstefna meira að segja inn í raðir helstu samtaka atvinnulífsins.

Í breska Íhaldsflokknum var aldrei gerð tilraun til að þagga þennan ágreining niður. Flokkurinn veiktist en hélt þó saman. Á þessu varð fyrst breyting í kosningum til sveitarstjórna og Evrópuþingsins í síðasta mánuði. Þá missti flokkurinn stærstan hluta kjósenda sinna bæði yfir til Brexit-flokksins og Frjálslyndra demókrata. Margir fyrrum áhrifamenn yfirgáfu flokkinn í þeim kosningum.

Fátt um málamiðlanir

Íhaldsflokkurinn ber nú ábyrgð á því að framkvæma ákvörðun þjóðarinnar um að ganga úr Evrópusambandinu. En þegar deilur standa um fullveldi er fátt um málamiðlanir.

Evrópusinnar í Íhaldsflokknum lögðu margir hverjir til í byrjun að Bretland héldi áfram aðildinni að innri markaði Evrópusambandsins með því að gerast aðili að EES-samningnum. Því hafnaði hægri armurinn með þeim rökum að það breytti engu varðandi deiluna um fullveldið.

Þetta var óskynsamleg afstaða. En hún var rökrétt að því leyti að aðildin að innri markaðnum í gegnum EES felur í sér að aðildarþjóðirnar deila fullveldi sínu með sama hætti og um fulla aðild væri að ræða, nema hvað þær þjóðir sem bara eiga aðild að innri markaðnum njóta ekki þess lýðræðislega réttar að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru.

Það er nákvæmlega þetta sama sjónarmið sem veldur þeim djúpstæða ágreiningi í Sjálfstæðisflokknum sem kom upp á yfirborðið í umræðunni um þriðja orkupakkann. Þegar fullveldisrökunum er beitt eiga þau eins við um innleiðingu í gegnum EES eins og beina innleiðingu ríkjanna með fulla aðild. Og rétt eins og í Íhaldsflokknum er svigrúm til málamiðlana býsna þröngt þegar mál eru þannig vaxin.

Brexit-armurinn verður ofan á í Íhaldsflokknum

Breski Íhaldsflokkurinn fór fyrst að missa atkvæði í einhverjum mæli nú í vor vegna ágreinings um Evrópumálin. Og þá fóru þau í báðar áttir.

Sjálfstæðisflokkurinn byrjaði aftur á móti að missa fylgi frjálslyndra kjósenda fyrir nokkrum árum. Láta mun nærri að sá missir sé nær þriðjungi en fjórðungi fyrra fylgis.  Aftur á móti hefur Sjálfstæðisflokkurinn aðeins tapað óverulegu fylgi úr hægri arminum yfir til Miðflokksins.

Áður en yfirstandandi leiðtogakjör í Íhaldsflokknum hófst var ljóst að Brexit-armurinn hafði náð undirtökunum. Frjálslyndari og Evrópusinnaðri armur flokksins heyrir nú sennilega sögunni til. Á þessari stundu sjá menn ekki fyrir lengri tíma áhrif þess á stöðu flokksins; sérstaklega vegna þess að Verkamannaflokkurinn er líka í molum.

Fylgjendur innri markaðarins hafa betur í Sjálfstæðisflokknum

Hægri vængurinn sem innleiddi þöggunarstefnuna um aðildina að innri markaði Evrópusambandsins hefur verið ráðandi um langan tíma í Sjálfstæðisflokknum. Hin harða og heiftríka andstaða við þriðja orkupakkann rauf aftur á móti þöggunarstefnuna.

Þeir flokksmenn sem ekki vildu hleypa samvinnu Íslands og Noregs og aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins í uppnám áttu ekki annarra kosta völ en taka til kröftugra varna. Og Evrópuumræðan blómstraði allt í einu.

Öfugt við það sem gerðist í breska Íhaldsflokknum hafa talsmenn aðildar að innri markaði Evrópusambandsins orðið ofan á í þingflokki sjálfstæðismanna. Hins vegar á eftir að koma í ljós hvort þöggunarstefnan verður innleidd á ný þegar þriðji orkupakkinn er frá.

Popúlisminn vinnur í Bretlandi en rökræðan hér 

Bæði í Bretlandi og hér heima hefur umræðan um þessi efni leitt til árekstra milli hefðbundinnar pólitískrar rökræðu og popúlisma. Í Bretlandi sigraði popúlisminn en á Íslandi varð hefðbundin pólitísk rökræða ofan á.

Í Bretlandi leiddi Theresa May forsætisráðherra málefnalegu leiðina til málamiðlunar en mistókst. Nigel  Farage leiddi hreinu popúlísku útgönguhreyfinguna utan þings til sigurs.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur leitt popúlísku umræðuna á Alþingi með þungum  stuðningi Morgunblaðsins. En innan Sjálfstæðisflokksins hefur Björn Bjarnason fyrrum ráðherra lagt hvað mest af mörkum utan þings til stuðnings aðildinni að innri markaðnum og innleiðingu þriðja orkupakkans með afar kraftmiklum og rökföstum skrifum.

Íhaldsflokkurinn mætti óábyrgri stjórnarandstöðu en Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgri

Í Bretlandi hefur Verkamannaflokkurinn lagt meira upp úr því að koma hælkrók á ríkisstjórn Íhaldsflokksins en að finna lausnir. Á Alþingi hafa þrír stjórnarandstöðuflokkar á hinn bóginn lagt mest af mörkum til málefnalegs rökstuðnings við aðildina að innri markaðnum og innleiðingu þriðja orkupakkans.

Með þessu hjálpuðu flokkarnir þrír ríkisstjórninni en Sjálfstæðisflokknum alveg sérstaklega því þar voru innri átökin mest. Hugsanlega forðuðu þeir ríkisstjórninni frá meiri háttar áföllum.

Þó að málefnaleg og ábyrg afstaða sé sjálfsögð er hún eigi að síður eftirtektarverð í íslenskri umræðuhefð. Það er svo önnur saga en  ekki síður athyglisverð að forsætisráðherra sýndi með ummælum sínum á Alþingi að hún kunni ekki að meta slíkt framlag.