Erum þriðjaflokks fólk í félagsíbúðum

Leigjendur hjá Félagsbústöðum stofnuðu um helgina með sér hagsmunafélag, Félag leigjenda hjá Félagsbústöðum, á vel sóttum fundi í Dósaverksmiðjunni í Borgartúni. Félagið verður hluti af nýjum Samtökum leigjenda á Íslandi.

Í stjórn hins nýja félags sitja meðal annars Hildur Oddsdóttir og Vigdís Erla Rafnsdóttir. Þær mæta í 21 til Lindu Blöndal og segja marga hafa slæma sögu að segja um samskipti við yfirvöld sveitarfélaga, aðallega í Reykjavík þó, en tæplega 3900 félagslegar leiguíbúðir eru um allt land. þar af yfir 2000 í Reykjavík. Þær nefna dæmi um heilsuspillandi blokkaríbúðir sem fólk fái leigðar og algert aðgerðarleysi borgarinnar þegar bent er á alvarlega galla í húsnæðinu. Báðar veiktust í slíku húsnæði sem var mikið sýkt af myglu. Vigdís Erla var á sýklalyfjum vikum saman án þess að ná heilsu og Hildur var komin á innöndunarlyf og með hárlos eftir nokkurra ára búsetu í illa á sig komnu húsnæði. Báðar segjast ekki hafa náð eyrum borgaryfirvalda og ef eitthvað hafi verið gert hafi það verið fúsk.

“Fólki er bara ekki svarað”, segir  Vigdís Erla sem dæmi um slæm samskipti og einnig að þau einkennist af niðurlægjandi símtölum.

Aðpurðar hvort fólki sem þær hafi hitt þegar félagið var stofnað á fösutdag, hafi sagt þeim eitthvað nýtt segja þær nei en núna verði sögum safnað saman og fólk geti sagt frá þeim nafnlaust.

Er komið fram við ykkur eins og annars flokks? “Nei, þriðja flokks”, segja Hildur og Vigdís Erla í viðtalinu í kvöld.