Í snarpa brýnu sló milli Brynhildar Pétursdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar í dag og forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Brynhildur ræddi í óundirbúinni fyrirspurn hve lítið kæmi af málum frá ríkisstjórninni miðað við fram lagða málaskrá. Hún spurði m.a. hvort ráðherrar í ríkisstjórninni væru starfi sínu vaxnir, hvort Sigmundur Davíð væri sem forsætisráðherra nógu góður verkstjóri?
Sigmundur Davíð svaraði að það væri eðlilegt að ekki kæmu öll mál fram sem væru á lista – það eigi ekki að vera sjálfstætt markmið að menn séu að gera sem mestar breytingar á lögum, það eigi að gera góðar breytingar. Hans ríkisstjórn komi með góðar breytingar á lögum ólíkt því sem var á síðasta kjörtímabili þegar gerðar voru 200 breytingar á skattalögum, langflest til hækkunar. Hans stjórn geri færri en betri breytingar en hin fyrri.
Brynhildur spurði þá til hvers þessi þingmálaskrá væri, hvort hún væri óskalisti yfir mál sem væri gaman að leggja fram „ef við höfum tíma“. Til hvers værum við með ráðherra sem gæti ekki stjórnað þesssum rekstri? Væri kannski málið að leggja niður ráðherra? Væru þingmenn bestu ráðherrarnir, eða væri kannski betra að fá fólk með gráðu við hæfi og hæfni í mannlegum samskiptum?
Sigmundur Davíð sagði að það væri ekki eins og að þingmenn stjórnarandstöðunnar skorti mál til að tala um. Þótt þeir hefðu bara eitt mál myndi þeim endast að ræða það fram á kvöldið. „Það er vandinn hvernig stjórnarandstaðan er að hún tekur nánast hvaða mál sem er og gerir úr þeim málþóf.“