Óskar kynnir til leiks sölku: krakki hverfur eftir samskipti við prest – 19 árum seinna er prestur myrtur á grenivík

Óskar Guðmundsson kom með látum inn á íslenska glæpsagnasviðið með HILMU en fyrir hana hlaut hann Blóðdropann fyrir bestu glæpasögu ársins. BOÐORÐIN er þriðja bók Óskars þar sem hann fjallar um viðkvæm málefni sem oftar en ekki hafa dúkkað upp á síðum dagblaða og vakið upp deilur innan kirkjunnar sem og í þjóðfélaginu öllu.

Óskar fer einstaklega vel með söguefnið sem hefst árið 1995 þegar ungur drengur líkt og hverfur af yfirborði jaðrar eftir að hafa sést á tali við prest utan við kirkju eina á Akureyri.

Í þessari æsispennandi glæpasögu kynnir Óskar til leiks nýja og afar spennandi sögupersónu, Sölku að nafni. Nítján árum eftir að ungi drengurinn hverfur, fær hún morðmál til rannsóknar þegar prestur finnst myrtur inn á Grenivík. Óskar fléttar frábærlega saman hefndina, fyrirgefninguna og siðferðisleg álitamál sem bregða fyrir í sögunni.

Líkt og í fyrri bókum Óskars sýnir hann hæfni sína í persónusköpun. Salka er brothætt manneskja vegna ótilgreindra mála sem hún ber í farteskinu. En hún er um leið ákveðin og drifin áfram af metnaði og réttlætiskennd.

Þá tekst Óskari að fá lesandann til að finna til með persónum - ekki einungis þeim sem minna mega sín eða fórnarlömbum, heldur einnig kalla fram samúð með gerendum sem virðast uppfullar af mannvonskunni einni saman.  

Óskar Guðmundsson sýnir svo ekki verður um villst að hann er einn af okkar allra fremstu glæpasagnahöfundum. Og skyldi engan undra. Frásagnarstíll hans er myndrænn og þeytir manni umsvifalaust inn á sögusviðið.

Þetta er afar vel fléttuð glæpasaga sem heldur manni rækilega við efnið, sagan er keyrð áfram af blússandi krafti, persónurnar eru sterkar og eftirminnilegar, og svo er sagan líka marglaga og leynir á sér.

Ég mæli með BOÐORÐUNUM og fær verkið fjórar stjörnur eða nánast fullt hús.

\"\"

Hrafn Jökulsson