Elliði gapandi hissa: sagði þessi maður þetta í alvöru?

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, er ósáttur og um leið gapandi hissa á þeim ummælum sem Atli Thor Fanndal lét falla á mótmælafundi á Austurvelli um síðustu helgi. Á fundinum var þess krafist að Kristján Þór Júlíusson myndi segja af sér í kjölfar umfjöllunar Kveiks um Samherjaskjölin.  Elliði birti myndskeið þar sem Atli segir um Elliða og Sigríði Andersen, þingmann Sjálfstæðisflokksins.

„Þeir senda Elliða og Sigríði Andrersen í sjónvarpsþætti til að leggja fyrir okkur einhvers konar siðferðislegan ramma, eins og þessir gjörspilltu fúskarar geti sett okkur einhvers konar línu.“

Elliði segir á Facebook: „Sagði þessi maður í alvöru – og það í ræðu á Austurvelli – að ég (og Sigríður Á. Andesen) væri „gjörspilltur fúskari“? Að ég væri sem sagt sekur um alvarleg brot svo sem spillingu? Og klappaði fólkið sem gagnrýndi fyllirísraus á Klausturbar fyrir þessari orðræðu? #hvenærdrepurmaðurmann.“

Þá sagði Elliði í samtali við Eyjuna að Atli hafi vegið að æru sinni í ræðunni en hann ætli sér ekki að beita sér gegn Atla vegna málsins.

 „Það má vel vera að hann hafi vegið að æru minni í skilningi laganna en það skiptir mig nákvæmlega engu. Þann þráð ætla ég ekki að spinna, heldur frekar að kalla eftir því að fólk láti ekki menn sem svona stíga fram afvegaleiða umræðuna um jafn alvarlegt mál meint afbrot Samherja í Namibíu.“

Elliði segir enn fremur um Atla Thor:

„Ég hef ekki sterkar skoðanir á Atla en það hryggir mig að sjá múginn hrífast með ljótleikanum, sleggjudómunum og persónulegum árásum.“

Þá segir Elliði enn fremur:

„Það er magnað hvað ákveðnir hópar í samfélaginu telja sig þess umkomna að leggja sína sjálfmiðuðu mælistiku á samborgara sína. Að fólkið sem mest hneykslaðist til að mynda á framgöngu þeirra sem sátu að sumbli á Klaustursbar skuli standa og klappa þegar samborgarar þeirra eru sagðir spilltir menningarsnauðir vanvitar. Jafnvel þótt þeir hinir sömu hafi hvorki verið dæmdir, ásakaðir eða grunaðir um slíkt. Hvað þá að þessum þungu orðum fylgi nein röksemdafærsla.“ Elliði bætti svo við að öfgavinstrimenn væri að reyna að nota Samherjamálið til að ná fram pólitískum markmiðum.