Ekki eitt orð um guðna

Davíð Oddsson, sem er leiðarahöfundur Morgunblaðsins, sá ekki ástæðu til að skrifa leiðara um hinn nýja forseta Íslands og embættistöku hans. Davíð Oddsson á það sameiginlegt með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að hafa ekki mætt við athöfnina í þinghúsinu í gær. Fjarvera þeirra hefur vakið eftirtekt víða í samfélaginu.

Tuttugu ár eru síðan nýr forseti tók við völdum á Íslandi. Sem eru að mati flestra einstaklega merkileg tímamót. En ekki Morgunblaðinu.

Morgunblaðið fann margt að Guðna Th. Jóhannessyni í kosningabaráttunni. Þögnina nú má eflaust skýra með afstöðu blaðsins til hins nýja forseta.

Leiðarahöfundur sendir því fólki tóninn, í leiðara dagsins, sem talar fyrir  og hallast að fjölmenningu. Þar segir: „Eitt fagurt orðið er „fjölmenning“. Það er varla hægt annað en að laðast að því. En „góða fólkið“ tók það upp á arma sína af fullmiklu afli. Óðara mátti uppnefna hvern þann rasista eða nasista sem rétti upp hönd og spurði um hvað í orðinu fælist. Sá gerði það ekki aftur. Meðal þess sem ekki mátti nefna, hvort það gæti verið æskilegt að samhliða fjölmenningu færi lágvær, varfærin krafa um eðlilega tillitssemi og aðlögun að því sem fyrir var. Það er víðar gott fólk en á Íslandi.“

Davíð Oddsson freistaði þess að verða sjötti forseti Íslands. Það mistókst rækilega. Hann fékk rétt rúm þrettán prósent.