Eiginkona íslendings fékk tvö skot í sig

Finnbogi Rútur Finnbogason, meistaranámsnemi í heimspeki og alþjóða stjórnmálum í París, fékk símhringingu frá konu sinni, Caroline, í gær þar sem hann dvaldi heima. Konan sagði honum í símann að hún hefði orðið fyrir skoti frá hryðjuverkamönnum þar sem hún sat á kaffihúsi.

Finnbogi var nokkrum mínútum seinna kominn á vettvang. Mun erfitt að lýsa hvernig honum varð við þegar hann sá fólk í líkpokum en alls létust 12 í árásinni á kaffihúsið. Hann fékk að hitta konuna sína eftir að hún var flutt á spítala. Hafa þau síðan hist aftur í dag. Caroline er þegar þetta er skrifað í aðgerð. Finnbogi Rútur telur góðar líkur á að hún muni ná sér að fullu, a.m.k. líkamlega. Vinkona Caroline fékk skot í bakið.

„Það að konan mín sé meðal þeirra síðustu sem fóru í aðgerð af öllum þeim fjölda fólks sem urðu fyrir skotum segir mér að hún hafi sloppið vel miðað við flesta aðra,“ segir Finnbogi Rútur í samtali við Hringbraut.

Sjálfur segist Finnbogi ekki hafa sofið dúr í nótt.

Spurður um hug frönsku þjóðarsálarinnar að loknum hryllingnum segir hann að Frakkar séu nægilega miklir heimsborgarar til að „gelta ekki of snemma“ og á þá við dómhörku eða draga ályktanir of hratt eða ranglega. Menn líti svo á sem um hryðjuverk sé að ræða, sem sé sérstakrar gerðar og beri að líta á sem einangrað tilvik fremur en að kalla megi dæmandi fyrir fjölmenna hópa.

Allar opinberar stofnanir í París eru lokaðar í dag en íbúar bíða átekta næstu ákvarðana.

Finnbogi Rútur segir að sér hlýni um hjartarætur að vita til þess að Harpan verði skrýdd frönsku fánalitunum í kvöld. Sá stuðningur Íslendinga sé mikils virði eins og á stendur.