Egill: „vægast sagt ógeðfellt. heimskulegt. asnalegt.“

Egill Helgason fjallar um tyrkneska landsliðið í knattspyrnu. Það vakti athygli á dögunum þegar liðið heilsaði að hermannasið eftir sigur gegn Albaníu á heimavelli. Var liðið harðlega gagnrýnt að lýsa yfir stuðning með þessum hætti við hernaðaraðgerðir landsins á svæði Kúrda í Sýrlandi. En Tyrkir létu gagnrýnina sem vind um eyru þjóta og héldu uppteknum hætti eftir leikinn við Frakka þar sem liðið náði stigi með því að gera 1-1 jafntefli.

Egill Helgason gagnrýnir framkomu leikmannanna harðlega. Hann segir:

„Íþróttir eru oft rammpólitískar, ekki síst þegar þær eru notaðar í þágu einræðissinnaðra stjórnmálamanna og ríkja með árásarhneigð.“ Þá bætir Egill við:

„Með þessum hætti tengja leikmennirnir sig beint við innrás tyrkneska hersins á svæði Kúrda í Sýrlandi og hernaðar- og einræðishyggjuna sem gegnsýrir stjórnarhætti Erdogans forseta. Það er vægast sagt ógeðfellt. Heimskulegt. Asnalegt.“

Egill telur ólíklegt að Tyrkjum verði vísað úr Evrópukeppninni vegna þessa, en margir hér á landi hafa kallað eftir því að dregin verði stig af Tyrkjum eða þeir gerðir útlægir úr keppninni. Egill segir að lokum:

„Fremur ólíklegt er að það gerist. Serbar voru reknir úr keppni 1992 og Danir komu í staðinn – unnu þá keppnina.

Tyrkirnir eru aðalkeppinautar okkar Íslendinga um sæti í úrslitum Evrópumótsins. Það bendir allt til þess að þeir muni hafa betur. Eins leiðinlegt og það er – ekki síst ef tekið er mið af hugarfari leikmannanna.“