Dularfullu drykkjarílátin á bústaðavegi snúa aftur! þýðir þetta að það séu peningar í bláu holunni?

Plastglösum í mismunandi litum er reglulega stillt upp á staur á gatnamótum Bústaðavegar og Grensásvegar og er skipt um bolla reglulega án þess þó að hægt sé að greina ákveðna reglu í því sambandi. Hefur þetta staðið yfir um árabil, með mislöngum hléum. Vísbendingar er um að um merkjasendingar í undirheimunum geti verið að ræða, en engar skýringar hafa þó fundist hvers vegna þetta er gert. Kenningarnar eru hins vegar fjölmargar.

Árið 2014 fjallaði Vísir um dularfullar merkjasendingar á Bústaðavegi. Var það talið tengjast glæpastarfsemi í hverfinu. Um var að ræða litaða bolla sem komið hafði verið fyrir uppá umferðareyju á gatnamótum við Grensásveg. Nú fimm árum síðar eru merkjasendingar byrjaðar á nýjan leik á nákvæmlega sama stað en í stað þess að nota bolla er um glös að ræða. Í gær var bleikt glas á staurnum en í dag er það blátt. Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild vildi ekki útiloka í samtali við Hringbraut.is að hin dularfullu glös tengist merkjasendingum í undirheimunum en sagði að einnig gæti verið um listrænan gjörning að ræða.

Árið 2014 kom fram að samkvæmt heimildum Vísis tengdust bollarnir undirheimunum, að mismunandi litir bollana kæmu skilaboðum áleiðis til viðskiptavina. Reynt var að komast til botns í málinu árið 2014 en lögreglunni varð þó ekki ágengt.

Karl Steinar Valsson segir í samtali við Hringbraut að hann hafi ekki heyrt af því að merkjasendingar væru hafnar á nýjan leik. Þá rekur hann ekki minni til þess að gátan hafi verið leyst.

Í undirheimunum eru ýmsar leiðir notaðar til að koma skilaboðum áleiðis. Heimildarmaður Hringbrautar segir að þetta gæti þýtt að stór sending væri komin til landsins. Þeir sem eru stórtækir í innflutningi vilja forðast það að hitta heildsala og smásala, eða setja sig í beina hættu ef lögreglan hefði haft veður af fyrirhuguðum viðskiptum. Þannig gæti bleikt eða blátt verið skilaboð um að ná í efnið í „bláu holuna“ eða þá bleiku. Peningarnir yrðu síðan skildir eftir á sama stað eða einhverjum öðrum sem hefur verið komið sér saman um.

Segir heimildarmaðurinn að sumum kunni að þykja þetta einkennileg aðferð á tímum dulkóðaðra samskipta en þeir sem standi í innflutningi í stórum stíl vilja ekki taka neina áhættu. Bætir heimildarmaðurinn við að ýmsar aðferðir í þessum stíl séu nýttar til samskipta en þá segir heimildarmaðurinn að ekki sé hægt að fullyrða að þetta tengist undirheimunum á nokkurn hátt. Þarna gætu hafa verið krakkar að verki eða misskilinn listamaður.

Karl Steinar segir í samtali við Hringbraut að hann muni eftir að bollarnir hafi verið skoðaðir. Aðspurður hvort þetta gæti verið leið til að koma skilaboðum áleiðis í undirheimunum eða þekkt aðferð, svaraði Karl:

„Ég veit nú ekki í hvort þetta sé tengt því eða ekki, við getum ekki fullyrt um það. Þetta getur líka verið einhver að fíflast í ykkur og okkur, einhver listgjörningur. Það gæti alveg eins verið.“

Veist þú meira um málið – Sendu okkur póst á [email protected] ef þú telur að þú getir leyst gátuna!