Harmi slegin í háskólabíó: dónalegar stúlkur rifu hækjurnar af slasaðri stelpu og hrintu henni – „þá ýtti hún henni og fóru að öskra á okkur“

Kristín Rós og vinkonur hennar lentu heldur betur í leiðinlegri uppákomu á Aldamótatónleikunum í Háskólabíó um helgina þegar þær urðu fyrir barðinu á virkilega dónalegum stúlkum.

„Eftir nokkur lög fara tvær stelpur fyrir framan okkur að dilla sér sem er náttúrulega kannski ekkert athugavert nema það að þetta eru sitjandi tónleikar og þær voru alveg upp við okkur og fyrir okkur,“ segir Kristín Rós í samtali við Hringbraut.

Ein vinkona Kristínar er slösuð og þurfti hún að mæta á hækjum á tónleikana, það var því erfitt fyrir hana að ætla að standa lengi til þess að sjá á sviðið fyrir stúlkunum.

„Þær drógu svo eina stelpu yfir sviðið á meðan tónlistarmenn voru að koma fram og stóðu ofan á veskjunum okkar og hækjunum hennar. Þegar við reyndum að færa dótið okkar rífur ein stelpan í hækjuna og reynir að taka hana af vinkonu minni,“ segir Kristín Rós en vinkonurnar höfðu eytt miklum pening til þess að vera framarlega á tónleikunum.

„Sú sem var á hækjunum gat ekki staðið lengi og þurfti því að setjast af og til niður en þá sá hún ekki neitt af því að þær voru fyrir. Þegar uppáhalds lagið hennar var spilað stóð hún upp og fór að dilla sér og þar sem það var ekki nóg pláss fyrir alla þarna þá snýr ein af stelpunum sér við og bað hana um að færa sig. Hún sagðist þá hafa borgað fyrir sætið og að hún vildi dansa við vinkonur sínar. Þá brostu stelpurnar og svo stökk hún aftur á bak, beint á vinkonu mína sem datt í sætið. Hún stóð svo upp en þá ýtti hún henni aftur til baka og þær fóru að öskra á okkur að við værum tussur og fleira,“ segir Kristín.

Um tíma fóru fleiri vinkonur stúlknanna að troða sér á svæðið svo þær höfðu ekki greiðan aðgang að sætum sínum.

„Þetta gekk svona þangað til að tónleikarnir voru búnir og ein okkar reyndi að tala við þær og útskýra fyrir þeim að við hefðum borgað fyrir þennan stað vegna þess að vinkona okkar væru á hækjum og að þetta hafi verið afar leiðinlegt. Þær hefðu skemmt tónleikana fyrir okkur. Þá sögðu þær við okkur að við kynnum ekki mannleg samskipti. Við gátum ekkert gert svo við fórum bara.“

\"\"

Kristín vakti athygli á framkomu stúlknanna á samfélagsmiðlum og í kjölfarið hafði ein þeirra samband við hana til þess að biðjast afsökunar á hegðun sinni.

„Hún sendi bara skilaboð á mig, ég varð minnst fyrir þessu og ég lét hana vita hverjar vinkonur mínar væru svo hún gæti haft samband við þær og beðist afsökunar en það var ekkert gert. Við fengum engar afsökunarbeiðnir, bara afsakanir og þetta var allt voðalega óþroskað,“ segir Kristín Rós sem er að vonum miður sín vegna uppákomunnar enda var kvöldið eyðilagt fyrir þeim.