Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins segist ekki muna eftir öðrum eins leiðara og í Morgunblaðinu á þriðjudag dag þar sem Davíð Oddsson stjórnist í núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins með afar áberandi og einbeittum hætti.
Þetta kom fram í fjörlegum Ritstjóraþætti á Hringbraut í gærkvöld þar sem Jón rýndi í pólitíska landslagið ásamt Svavari Gestssyni, fyrrverandi formanni Alþýðubandalagsins, ritstjóra Þjóðviljans og þingmanni, en Svavar segir í þættinum, sem nú má sjá hér á vef stöðvarinnar, að væntanleg hægristjórn verði hvorki frjálslynd né umbótasinnuð heldur merkisberi eindreginna hægrisjónarmiða í skóla- og heilbrigðismálum svo sem sjá muni stað á næstu mánuðum og misserum - og Evrópusambandsmálin verði alls ekki á dagskrá - og eru þeir Jón Sigurðsson þar algerlega sammála; Brexit hafi sett ESB á bið fyrir Íslendinga í líklega fimm, sex ár.
En sem fyrr segir; Jón Sigurðsson segir herhvöt Moggaleiðarans á þriðjudag sæta stærstum tíðindum nú um stundir, aldrei hafi fyrrverandi formaður stjórnmálaflokks á Íslandi hlutast jafn afgerandi til í pólitík núverandi formanns; hann sé ekki einasta að segja Bjarna fyrir verkum, heldur sé hann að fyrirskipa hvað beri að gera og aðhafast: \"Þetta er svo hörð atlaga að athafnafrelsi Bjarna að ég man ekki annað eins,\" segir Jón um leiðaraskrif Davíðs sem hann metur svo að hafi veikt stöðu Bjarna við erfiða og flókna ríkisstjórnarmyndun í byrjun nýs árs.
Ritstjórarnir eru endursýndir í dag, en frumsýndir klukkan 21:00 öll þriðjudagskvöld.