Davíð gat afstýrt hruni bankanna: hélt leynifund á heimili sínu - „þetta er með ólíkindum“

Vorið 2006 funduðu bankastjórar íslensku bankanna á heimili Davíðs Oddssonar þáverandi seðlabankastjóra. Davíð hafði þá tök á að grípa til aðgerða og Landsbankinn hefði ekki getað stofnað Icesave-reikninganna. Þetta kemur fram í Stundinni sem vitnar í frásögn Sveins Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóra. Øygard, sem er norskur hagfræðingur og gegndi embætti seðlabankastjóra til skamms tíma, frá febrúar og fram í ágúst 2009, segir í bók sinni sem kom nýverið út.

„Sumir segja að stjórnvöld, Seðlabankinn og viðskiptabankar hefðu lítið getað aðhafst 2006 og 2007. Það er einfaldlega ekki rétt.“ Þá segir Øygard einnig:

„Sumir viðmælenda minna segja að það sé hægt að benda nákvæmlega á þá stund þegar örlög Íslands voru ráðin. Þann dag fóru aðilar málsins af fundi og töldu sig hafa leyst vandann. Þeir hefðu betur farið af fundi með þá hugsun að fram undan væri tröllaukinn vandi.“

Á Stundinni kemur fram að fundurinn hafi farið fram sunnudaginn 26. Mars eftir að Landsbankinn hafði tilkynnt yfirvöldum að bankanum yrði ekki kleift að greiða afborgun sem félli í gjalddaga daginn eftir. Vegna stöðunnar var boðað til neyðarfundar á heimili Davíðs ásamt fulltrúum frá Landsbankanum, Glitni og Kaupþingi. Øygard segir:

„Þarna misstu menn af tækifæri til þess að grípa í taumana. Það sem gerðist eftir þennan fund var að Landsbankinn kom á fót Icesave, einingu sem tók við innstæðum og magnaði þar með upp kerfislæga áhættu.“

Það sem gerðist í kjölfarið var að bankarnir treystu enn frekar á að fá meira fjármagn frá Seðlabankanum. Þá segir Øygard á öðrum stað:

„Hefði verið reynt að ná tökum á efnahagskerfinu daginn þann hefði mátt forðast hvellinn. Í stað þess að draga úr umfangi eigna sinna keyptu bankarnir eigin hlutabréf, juku lán til eigenda sinna og lögðu fram enn meiri peninga þegar þrýst var á eigendurna út af fyrirtækjasamsteypum, lystisnekkjum og þotum. Mikið af þessari gegndarlausu eyðslu var fjármagnað með skammtímalánum úr Seðlabankanum.“

Þannig hafi fundurinn heima hjá Davíð verið það augnablik þar sem ekki varð aftur snúið. „Þetta er með ólíkindum,“ segir Trygve Young, reyndur norrænn bankamaður í bókinni.

Ítarlega umfjöllun er að finna á vef Stundarinnar.