Björn þorláks ráðinn á hringbraut

Fjölmiðlamaðurinn landskunni, Björn Þorláksson hefur verið ráðinn til starfa á sjónvarps- og vefmiðlinum Hringbraut og mun í fyrstu láta til sín taka í pistlaskrifum, fréttaskýringum og greiningum á hringbraut.is.

Björn hefur síðustu ár starfað sem ritstjóri hjá Akureyri vikublaði. Efnistök blaðsins hafa þótt beitt og vakið landsathygli. „Það hefur verið skemmtileg áskorun að halda úti gagnrýnum staðarmiðli í fjögur ár en nú er orðið tímabært að söðla um. Ég mun hafa almannahagsmuni að leiðarljósi í störfum mínum hjá Hringbraut eins og blaðamönnum ber að gera. Nú eru liðin sex ár síðan ég vann síðast við ljósvakann og ég hlakka til að snúa aftur á nýjan vettvang,“ segir Björn í samtali við hringbraut.is.

\"Það er mikill fengur í Birni,\" segir Sigmundur Ernir Rúnarsson ritstjóri og dagskrárstjóri Hringbrautar. \"Björn er eitilharður blaðamaður sem hefur alltaf kappkostað að greina málefni samtímans á hlutlægan og gagnrýninn hátt. Og hann er ekki fyrir það að stytta sér leið í starfi sínu sem er höfuðkostur sanns og trúverðugs blaðamanns,\" segir Sigmundur Ernir og hlakkar til samstarfsins með Birni sem muni taka þátt í enn frekari þróun á fjölmiðlaþjónustu Hringbrautar á næstu misserum.

Björn er þjóðfélagsfræðingur að mennt með MA-gráðu í blaða- og fréttamennsku frá HÍ. Hann er höfundur sex bóka, nú síðast Mannorðsmorðingja? sem kom út í vor. Hann er kvæntur Arndísi Bergsdóttur doktorsnema og eiga þau fimm börn.