Björn bendir á leiðinlegasta þingmanninn: „snýr gjörsamlega út úr öllu og ekki hægt að treysta ...“

Björn Leví opnar sig um skemmtilegustu og leiðinlegustu þingmennina í helgarblaði DV. Hann vildi ekki tjá sig um einstakar persónur en greindi frá því með hverjum væri erfiðast að vinna. Fyrst var Björn spurður hver væri skemmtilegasti þingmaðurinn og þá hvort það væri jafnvel hann sjálfur:

„Nei, alls ekki, ég er sko ekkert skemmtilegur. Ég er svo leiðinlegur við alla að spyrja óþægilegra spurninga og gagnrýna alla, jafnvel samstarfsfélaga í minnihlutanum, sem hefur þótt mikið tabú. En þetta er vinnan mín, vinna sem gerir ákveðnar kröfur til mín. Ef ég ætla að sinna þessari vinnu vel, þá eru ýmsir hlutir sem ég get ekki haft mína hentisemi um. Það er í rauninni svona lykilatriði hvað allt þetta varðar.“

Þá útskýrði Björn af hverju hann væri stundum í ósamstæðum sokkum.

„Það [er] umhverfisvænt á vissan hátt að þurfa ekki að farga pari af sokkum bara því annar sokkurinn er kominn með gat eða horfinn.“

Þá segir Björn á öðrum stað:  

„Ég vil ekki klæða mig upp, gera mig ofursnyrtilegan og vera í samstæðum sokkum. Ég vil ekki klæða mig upp í virðingu. En á sama tíma þá skil ég það vel að aðrir snyrti sig ef það er samkvæmt þeirra sannfæringu.“

Þá var komið að spurningunni hver væri leiðinlegasti þingmaðurinn. Björn svaraði að þarna væri hann að tjá sig um störf þingmannsins en ekki persónu hans utan þingstarfa. Björn sagði:

„Ég get tvímælalaust fullyrt að Sigmundur Davíð sé leiðinlegastur af því að hann að langómálefnalegastur. Langsamlega ómálefnalegastur. Og snýr gjörsamlega út úr öllu og ekki hægt að treysta á orð sem hann segir. Ég get alveg bara hiklaust sagt það út frá þeim forsendum.“