Bjarni: stjórn með vg vel möguleg

Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur segir það mjög athyglisvert að einungis tveir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafi umtalsvert fylgi, en flestir hinna flokkanna, sem á annað borð mælast eitthvað eru með fylgi um og undir tíu prósentum.

Þetta kemur fram í kosningaþætti Hringbrautar í kvöld þar sem Eiríkur fer yfir pólitíska sviðið vikuna fyrir kosningar, en hann telur góðar líkur á því að mynduð verði minnihlutastjórn eftir kosningar með aðkomu VG, Samfylkingar og Pírata þar sem Framsóknarmenn og Viðreisnarfólk myndu verja vantrausti. Ef hins vegar næst að mynda meirihlutastjórn er augljóst að þrír fyrstnefndu flokkarnir myndu velja á milli Framsóknar og Viðreisnar; augljóst sé að VG hugnist Framsókn betur, en Samfylking og Píratar horfi fremur til Viðreisnar.

Ágúst Ólafur Ágústsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður mætir fyrstur til leiks í þátt kvöldsins, en hann segir brýnast að auka jöfnuð í samfélaginu, en helsta vandamál þess sé aukinn eignaójöfnuður, fremur en tekjuóöfnuður. Hann vill gera stórátak í uppbyggingu á íbúðahúsnæði og nefnir þar 6000 nýjar fasteignir sem reknar yrðu af óhagnardrifnu félagi. Stærsta buddumálið sé þó klárlega upptaka evrunnar sem skipti heimilin og ungt fólk öllu máli.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs mætir við háborðið á eftir Ágústi Ólafi, en þar lýsir hún því yfir að ekki eigi að hækka álögur á almenning í landinu, en stóreignafólk eigi aftur á móti að greiða meira til samfélagsins en það gerir í dag, sömuleiðis útgerðin í landinu - og þá eigi ríkið að taka til sín meiri skerf frá Landsvirkjun og viðskiptabönkunum. Hún vill ekki hækka vask á ferðaþjónustuna heldur setja á 100 króna komugjald á alla ferðamenn.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins segir að aðalverkefni næstu missera sé að verja efnahagslegan stöðugleika og hátt atvinnustig, en flokkurinn leggi mikla áherslu á að ungt fólk fái vinnu eftir nám svo það geti safnað sér fyrir útborgun fyrstu íbúðar; vinnan sé mesta velferðarmálið í samfélaginu. Hann segir aðstæður nú um stundir heppilegar til að mynda sáttastjórn þvert yfir pólitískar gjár - og því sé samstjórn VG og Sjálfstæðisflokks vel möguleg.

Kosningaþátturinn byrjar klukkan 20:00 í kvöld og stendur yfir í klukkustund.