Birgitta lét forsetann heyra það

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata notaði fyrstu mínútur ræðu sinnar vip þingsetninguna í gærkvöld til að svara Ólafi Ragnari Grímssyni. Hann fengi að messa yfir þingmönnum við upphaf sérhvers þings án þess að þeir fengju að svara fyrir sig: \"Ég vil því nota tækifærið og andmæla staðhæfingum forsetans.“
 

Frá þessu er greint í yfirliti RÚV yfir þingsetningarræður þingmanna og ráðherra, en Ólafur Ragnar Grímsson forseti var gagnrýninn á áform um breytingar á stjórnarskrá í ræðu sem hann flutti við setningu Alþingis. Hann sagði að það væri andlýðræðislegt að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar samhliða forsetakosningum næsta sumar.

Birgitta sagði forsetann hafa sniðgengið nokkur mikilvæg atriði í tengslum við mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar samhliða forsetakosningum: \"Í fyrsta lagi eru þetta óþarfa áhyggjur hjá forsetanum um að kosningar um stjórnarskrárbreytingar samhliða forsetakosningum verði ólýðræðislegar - það er einmitt eina mögulega leiðin til að tryggja nægilega þátttöku almennings.“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hóf ræðu sína á Alþingi, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, með óvenjulegum hætti. Bað hann viðstadda að loka augunum og fylgja sér í huganum upp á Vatnajökul.
 

Í huga þeirra væru víðerni Vatnajökuls full af fólki. Þá bað hann viðstadda að ímynda sér að þeir væru komnir til London, Kína eða Indlands. Þar væri engan að finna: \"Og þegar við opnum augun, ætlum við þá að reyna að halda því fram, í fullri alvöru, að heimurinn se svo stór að við getum ekki haft áhrif á hann til breytinga og mannfjöldinn svo mikill að við skiljum ekki hver hann er? Nei. Það er ekki þannig. Er það ekki kannski frekar að við sannfærumst um að sú tilfinning okkar að við getum leyst vandann sé rétt en að það sem haldi aftur að okkur séu mótbárur og afsakanir ríkjandi valdakerfa?“ sagði Árni Páll. 

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði blendnar tilfinningar bærast með sér í upphafi þingfundar. Íslendingar væru að upplifa eitt lengsta hagvaxtarskeið á seinni árum en að sama skapi væri Alþingi í þeirri stöðu að upplifa óeðlilega lítið traust hjá almenningi.
 

Bjarni sagði þingmenn verða að líta í eigin barm - að fara treysta fólkinu betur. Hann rifjaði upp að ekki væri langt síðan að hér hefði til að mynda ekki verið frjálst útvarp né hægt að kaupa bjór.

Þingið stæði frammi fyrir fleiri slíkum málum - það væri ekki enn farið að treysta fólki.

Hann nefndi sem dæmi kröfu frá atvinnulífinu um að lækka tryggingargjaldið enn frekar - það væri í eðli sínu frelsismál þar sem álögum væri létt til að hugmyndir gætu fengið að blómstra.

Þingið væri að senda röng skilaboð með því að treysta ekki fólki til að versla áfengi í venjulegum búðum. 

Bjarni minntist Péturs Blöndals sem lést fyrr á þessu ári - hann hefði talað fyrir frelsi og ábyrgð í ríkisfjármálum og þeirri umræðu yrði haldið á lofti. Og þingmenn ættu hafa það hugfast að hægt væri að vinna á vantrausti til þingsins með því að fara treysta fólkinu betur, að því er fram kom í fréttum RÚV í kvöld um umræður þingmanna og ráðherra við upphaf haustþings.