Bassaleikari íslands: höndin er að kreppast og spilamennskunni er bráðum sjálfhætt

Sögurnar fljúga um myndverið í Mannamáli kvöldsins á sjónvarpsstöðinni Hringbraut þar sem bassaleikari Íslands, Tómas R. Einarsson sest gegnt Sigmundi Erni og segir frá sínum lífsins leik í blíðu og stríðu.

Þessi sveitastrákur úr Dölunum ætlaði sér ekkert endilega að verða djassgjeggari og tónlistarmaður, þótt hann kynni á nikku frá unga aldri, enda voru tungumálin hans fyrstu ær og kýr, ef svo má segja, en svo stóð hann eitt augnablik frammi fyrir kontrabassa í búðarglugga á göngugötu í Osló, fyrir sléttum 40 árum, með vasana fulla fjár eftir vel launaða vinnu á norsku borpöllunum - og teningunum var kastað.

Dásamlegt er að horfa og hlusta á Tómas Ragnar segja kostulegar sögur frá ferlinum, svo sem þegar hann leið kvalir í tónlistartímanum, leysti af kunnan bassaleikara í djassgiggi í byrjun ferilsins og fannst hann ömurlegur á sviði, eða þegar kúbanska konan hafði af honum fúlgur fjár fyrir tónleika suður í höfum.

Hann segir bassaplokkið á enda, kannski að fimm ár séu eftir í spilamennskunni, því lófakreppa hrjái hann, einn uppskurður sé að baki og læknarnir segi að brátt muni hann eiga erfitt með að læsa fingrunum um strengina.

En hann er enn að semja - og nýjasti diskurinn, Gangandi bassi, verði kynntur á tónleikum um helgina þar sem kontrinn verði kroppaður af kappi.

Mannamál hefst klukkan 20:00 í kvöld.