Bókfært eigið fé Arion banka var tæplega 170 milljarðar króna um mitt ár, en líklegt kaupverð er talið nokkuð undir því verði, samkvæmt sömu heimildum fréttastofu. Einnig mun vera áætlað að fá almenna fjárfesta til kaupanna. Arctica Finance stefnir sjálft að því að taka þátt í kaupunum og vill skrá Arion banka í kauphöll á fyrri hluta næsta árs. Virðing gerir, samkvæmt heimildum fréttastofunnar, aðeins ráð fyrir að koma að kaupunum sem ráðgjafi.
Fram kemur í fréttinni að margir helstu stjórnendur Virðingar voru áður yfirmenn hjá Kaupþingi. Forstjórinn er Hannes Frímann Hrólfsson, en hann var aðstoðarframkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Kaupþingi fyrir hrun. Hann var einnig um tíma aðstoðarframkvæmdastjóri fjárstýringar og markaðsviðskipta hjá Arion banka eftir hrun.
Framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Virðingar er Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþing Singer & Friedlander í Lundúnum. Ásgeir Jónsson, efnahagsráðgjafi Virðingar, var forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings og síðar Arion banka. Frosti Reyr Rúnarsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Virðingar, var forstöðumaður verðbréfamiðlunar Kaupþings. Kristín Pétursdóttir fyrrum framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi er formaður Virðingar og stærsti hluthafi þar
Samkvæmt heimildum Hringbrautar eru einnig í Virðingarhópnum athafnamennirnir Hreggviður Jónsson og Sigurbjörn Þorkelsson, en óstaðfestar heimildir herma einnig að Bjarni Ármannson ætli sér aðkomu að hópnum.
Í Morgunblaðinu kemur fram að enginn af þremur stærstu lífeyrissjóðum landsins, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóði verslunarmanna og Gildi, hafi skuldbundið sig til að taka þátt í tilboðum Virðingar og Arctic Finance. Málið hefur enn ekki verið rætt í stjórn LSR, samkvæmt heimildum fréttastofu.