Bænheyrður í bremerhaven – fór 12 ára á vændishús með skipsfélögum

Jón Ársæll Þórðarson er gestur Sigmundar Ernis í viðtalsþættinum Mannamál á Hringbraut í kvöld. Hann er einn dáðasti spyrill landsins og vann meðal annars hug og hjörtu landsmanna í þáttum sínum Sjálfstætt fólk. Jón Ársæll átti litríka æsku, þar sem hann fór fimm ára í sveit og 12 ára á togara, eitthvað sem þætti barnaverndarmál í dag.

„Ég man að það var mikil upphefð og skemmtileg en svakalegt að læra á það allt saman og vera innan um vírana. Þetta eru gríðarleg læti þegar það er verið að taka trollið,“ segir hann.

Aðspurður um hvernig það hafi verið að vera ófermdur gutti í þessum félagsskap segir Jón Ársæll: „Bara dásamlegt. Ég var allt í einu orðinn að manni einhvern veginn. Ég var mjög mikill Sjálfstæðismaður og reif kjaft í messanum. Þetta voru 32 karlar og ég hélt langar pólitískar ræður, hvað og hvernig þeir ættu að kjósa. Ég er af hægra fólki kominn. Kommúnisminn kom ekki inn í dæmið fyrr en mörgum árum seinna.“

Hann rifjar upp þegar hann fór með skipsfélögum sínum á vændishús, ekki kominn á táningsaldur. „Svo fékk ég að fara með félögunum á mellubúllurnar í Bremerhaven og Kuchshaven í Þýskalandi. Þar man ég eftir því einhvern tíma að við vorum á búllu og þeir voru allir farnir skipsfélagar mínir, eitthvert upp einhverja stiga, pilsfaldar. Ég sit bara einn með bjórkönnuna þarna. Ég hafði á þeim tíma mikinn áhuga á því að safna, ég safnaði bjórmottum sem maður hefur undir og var kominn með helvíti mikinn stafla af bjórmottum.“

Þá seig ógæfan yfir: „Ég asnast til að rangla út í nóttina og er bara staddur allt í einu í stórborginni, með bjórmottustaflann, í miðju rauða hverfinu, týndur. Regnvot stræti og myrkur. Hvað á ég að gera? Ég veit ekki í hvaða átt höfnin er einu sinni. Þetta er stærsta borg sem ég hafði komið til,“ segir Jón Ársæll.

Hann heldur áfram: „Nema hvað, ég bregð á það ráð að fara bara með Faðir vorið. Það var það eina sem mér datt í hug. Ég fer bara með þetta eins og mér hafði verið kennt við móðurkné. Viti menn, ég er ekki fyrr búinn með bænina að það kemur fljúgandi maður út úr húsi, það var kastað manni út úr húsi, það er Doddi skipsfélagi minn. „Ha, Nonni, ert þú hérna?“ Ég var bænheyrður, og þetta sannar mátt bænarinnar.“

Mannamál er á dagskrá Hringbrautar í kvöld klukkan 20:00.