Aukinn kaupmáttur fór ekki til allra

 Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR mættu saman á Þjóðbraut til Lindu Blöndal í gærkvöld, en þátturinn verður endursýndur í dag og er einnig aðgengilegur á vefnum hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.

Það er „Fyrsta maí vikan“ eins og það má kalla hana. Það er krafa um launahækkanir í samélaginu og meiri jöfnuð. En tveir þriðju af þeim verðmætum sem sköpuð eru hér á landi er ráðstafað í laun.

„Í samanburði við Norðurlöndin þá er jöfnuður hér meiri en þar“, segir Konráð og vísar í nýja grein sína í Vísbendingu, vikuriti um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun. „Sem sagt lægstu tekjufimmtundin hefur meiri ráðstöfunartekjur hlutfallslega heldur en sambærilegir hópar á Norðulöndunum“.

Grein sína nefnir Konráð Hálaunalandið Ísland. Ragnar Þór sagði afturmóti í hátíðarræðu sinni á þriðjudaginn 1.maí aðbilið milli ríkra og fátækra hafi aldrei verið meira og landinu væri stjórnað af ríkasta minnihlutanum. Hann sagði VR geta farið í verkfallsskærur og gera það sem bítur mest til að bæta kjörin.

Konráð og Ragnar Þór virðast lýsa sitt hvoru samfélaginu en samkvæmt Ragnari Þór er ekki hægt að reiða sig eingöngu á opinberar hagtölur eins og frá OECD og Eurostat, þær lýsi ekki raunveruleikanum og því sættist forysta VR ekki á að kaupmáttur hafi almennt aukist þegar skoðaðar eru ráðstöfunartekjur.

„Við höfum aðrar leiðir til þess að reikna út stöðu fólks. Við höfum verið að taka bara beint og rannsaka ráðstöfunartekjur hópa í svipuðum stöðum, í svipuðum atvinnugreinum á milli landa og þar kemur þetta bara svart og hvítt í ljós“, segir Ragnar Þór og meinar að þar sjáist hve launamunur er mikill á milli landa hjá fólki í t.d. störfum fyrir ófaglærða eða umönnun. „Þetta er svart og hvítt“, segir Ragnar um ráðstöfunartekjur hér á landi miðað við t.d. í Noregi og Svíþjóð.

Konráð segir að samkvæmt samkvæmt hagtölum, mismunandi tekjutíundum, stéttum og fleira hafi allir hópar fengið kaupmáttaraukningu þótt hún hafi ekki runnið til allra einstaklinga.

Konráð á við að laun séu há hér á á landi miðað hverja unna klukkustund, það sýni allar opinberar tölur frá Íslandi og grannlöndunum.