Auður um skilnaðinn: „allt í einu er ég orðin eins og ég sé 24 ára“

Einn okkar besti rithöfundur og blaðamaðurinn Auður Jónsdóttir var gestur Egils Helgasonar í Kiljunni í kvöld. Þar rifjaði hún upp kynnin við bari bæjarins eftir að hún skildi við eiginmann sinn. Auður fjallar um þessa reynslu í sjálfsævisögunni Tilfinningarbyltingin. Auður sagði:

„Allt í einu er ég orðin eins og ég sé 24 ára aftur að hitta menn, babbla og fara út með vinkonunum - allar með eldrauðan varalit að kjafta inni á klósetti.“

Auður fjallar á einlægan hátt um reynslu sína að ganga í gegnum skilnað eftir 18 ára hjónaband. Í samtali við Egil sagði Auður að í verkinu væri hún að gera tilraun til að fanga ákveðið hugarástand og nýtir hún skáldskapinn til að spegla og endurskoða líf sitt.

„Það er svo mikill óraunveruleiki að skilja,“ sagði Auður í kiljunni, en í bókinni segir hún frá skilnaðinum og hvernig hún tókst á við næstu daga eftir þessa örlagaríku ákvörðun. Auður sagði:

„Ég fór frá því að vera ráðsettur rithöfundur og húsmóðir í Berlín, kem heim í sumarfrí og skil.“

Auður hafði stundað skemmtanalífið af nokkrum þunga áður en hún gifti sig. Á meðan hjónabandinu stóð hefði hún getað talið það á fingrum annarrar handar hversu oft hún kíkti út á lífið. Nú átti það eftir að breytast:

„Allt í einu er ég orðin eins og ég sé 24 ára aftur á börunum að hitta menn, babbla og fara út með vinkonunum - allar með eldrauðan varalit að kjafta inni á klósetti,“

sagði Auður og skellti upp úr en bætti svo við:

„Þetta návígi í miðborginni, alls konar fólk úr öllum áttum er hvert ofan í öðru. Það varð eiginlega menningarsjokk frá því að vera í vesturberlínsku hverfi með eiginmann og son. Meira eins og að fara til Bangladess.“

Þá sagði Auður á öðrum stað að hún hafi fengið unglingaveiki á þessum tíma. „Ég var eiginlega unglingaveik í heilt ár. Vissi jafn lítið hver ég væri og þegar ég var unglingur. Ég átti fleiri vini sem voru að skilja á þessum tíma, sem upplifðu þetta líka, óöryggi í tilfinningalífinu.“

Auður óttaðist í mesta tilfinningarótinu að missa tengsl sín við son þeirra.

„Það var skelfilegt augnablik að átta sig á því að ég var ekki til staðar fyrir hann. Ég hafði verið svo tengd honum en það er eins og tilfinningalífið hafi lokað sér.“ Hún bætti við að nú þegar hún rifjar upp þennan tíma er hún fegin og léttir að honum sé lokið. Auður sagði: 

„Þegar ég horfi á þennan tíma núna er þetta eins og Woody Allen mynd. Djassinn sem heyrist í lokin er byrjaður að hljóma.“

Hér má hlusta á viðtal Egils Helgasonar við Auði í Kiljunni.