Alveg sama hvað ráðherraráð esb segir, dómstóllinn ræður öllu

Sighvatur Björgvinsson og Svavar Gestsson, fyrrverandi ritstjórar, eru gestir Sigmundar Ernis í Ritstjórunum í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræða þeir helstu fréttamál líðandi stundar, þar á meðal þriðja orkupakkann og nýgerða kjarasamninga. Þátturinn hefst klukkan 21:00.

Um þriðja orkupakkann segir Sighvatur gæta misskilnings um hvað EES samningurinn feli í sér. „Það er ekki rétt að þetta mál tengist á nokkurn hátt hinum upphaflega EES samningi. Sá samningur neyðir okkur ekki til að taka upp þriðja orkupakkann. Hann [samningurinn] hefur þróast vissulega, og fyrsta tækifærið til að stöðva þetta var þegar þetta var tekið fyrir í sameiginlegu EES-nefndinni árið 2017. Ef við hefðum gert þá athugasemd sem við gerðum ekki en hefðum átt að gera, þá hefði málið verið miklu auðveldara fyrir okkur í dag.“

Sighvatur er mótfallinn því að Ísland gerist aðilar að evrópska orkumarkaðnum. „Ég byggi mína afstöðu ekki á þessum hryllilegu upphrópunum sem eiga ekkert skylt við inntak málsins. Þetta mál, að mínu viti, breytir ekki neinu um það að íslenskar orkulindir sem eru nú nýtanlegar, nú nýttar, þær eru ýmist í eigu ríkisins eða sveitarfélaga og það verður að setja sérstök lög ef það á að breyta því. Þannig að það er t.d. ekki hægt að selja Landsvirkjun til útlendinga nema breyta lögum. Það sem hins vegar getur haft áhrif er það að eru ýmsir einstaklingar sem hafa fest kaup á jarðnæði á Íslandi, m.a. í Vopnafirði. Þeir eru að hugsa sér að nýta þær auðlindir til framleiðslu á rafmagni. Áhættan er sú að ef við tengjumst með einhverjum hætti evrópska markaðnum, sem við erum ekki aðilar að í dag, og að mínu viti eigum ekki að sækja um aðild að, ef við sækjum ekki um aðild að þeim markaði verður mikli minni þrýstingur á það að við öðlumst markaðsaðgengi síðar,“ bætir hann við.

„Kjarni míns málflutnings er ekki sá að íslenskar orkulindir lendi í eigu útlendinga eða eitthvað svoleiðis, sem er hreinn tilbúningur. Það er einfaldlega það að ef við gerumst aðilar að evrópska orkumarkaðnum þá mun það hafa sömu áhrif hér og í Noregi, orkuverð til almennings mun hækka. Það hefur hækkað til samræmis við það sem er í Evrópu. Það er ekki í þágu íslensku þjóðarinnar. Ef við gerumst aðilar að markaðnum þá gerist tvennt, orkuverð til almennings mun hækka og virðisaukinn af orkuframleiðslunni á Íslandi, sem hefur orðið eftir á Íslandi, í formi álvera, grænmetisbúskapar og fleira, hann verður til í kaupendalandi orkunnar frá Íslandi, hann verður til á meginlandi Evrópu en ekki hér,“ segir Sighvatur.

Hann bætir við: „Þetta gerir það að verkum að ég er á móti því að við stígum eitthvað skref til þess að öðlast aðgang að þessum markaði. Það var sagt af hálfu núverandi ríkisstjórnar að það sé búið að koma í veg fyrir þetta með því að orkumálaráðherra Evrópusambandsins hafi skrifað undir yfirlýsingu um það að það sé ekki stefnt að þessu. En áttum okkur á einu, það er alveg sama hvað ráðherraráð Evrópusambandsins segir, það er dómstóllinn sem ræður öllu. Þetta hefur ekkert vægi gagnvart dómstólum, það sem ráðherrann segir,“ segir Sighvatur einnig.