„aldrei í stjórn með brennuvarginum“

Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi þingmaður VG og heilbrigðisráðherra og Viktor Orri Valgarðsson, stjórnmálafræðingur og varaþingmaður Pírata eru sammála um að nýjar kosningar séu ekki á næsta leiti. Önnur skref megi og þurfi að taka áður en slíkt gerist. Álfheiður segir til að mynda að láti forseti Íslands svo lítið sem skína í utanþingstjórn muni forysta flokkanna láta enn meira reyna á samstarf. Utanþingstjórn sé eitur í beinum allra þingmanna og sjálf segir hún það ógn við lýðræðið og þingræðið. 

Álfheiður og Viktor Orri mæta í Þjóðbraut kl. 21:15 í kvöld, þriðjudag.

Viktor Orri sagði að einhvers megi líka vænta í fjárlagagerðinni. Það væri slíkt verkefni að enginn gæti gengið frá því færi honum að „líða eitthvað illa“, og vísaði í þá flokka sem hafa gengið burt frá formlegum eða óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum. Í þeirri vinnu gæti skapast sameiginlegir fletir á erfiðum málum. Álfheiður tók undir þetta en aftók með öllu að VG færi í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, sama hvaða kringustæður sköpuðust þá færi VG ekki í stjórn með „brennuvarginum“, eins og hún orðaði það. Hún sagði ekkert hæft í því að VG væri ekki samstíga flokkur eins og Viktor Orri sagði að virtist vera raunin.

Katrín Jakobsdóttir fær illkvittnislega og gríðarlega ósanngjarna meðferð á samfélagsmiðlum núna og verið er að gera lítið úr hennar hæfileikum með karlrembulegum hætti, sagði Álfheiður ennfremur. Vinstri græn væru einfaldlega að standa við kosningaloforð um að endurreisa heilbrigðiskerfið og menntakerfið svo eitthvað af stærstu málunum séu nefnd.