Aðstoðarmennirnir

Fjórir ráðherrar hafa nú þegar ráðið sér aðstoðarmenn, einn eða fleiri.

Ótt­arr Proppé heil­brigðisráðherra réði Sigrúnu Gunn­ars­dótt­ur og Unn­stein Jó­hanns­son.

Sigrún Gunn­ars­dótt­ir er hjúkr­un­ar­fræðing­ur og með doktors­gráðu á sviði lýðheilsu og stefnu­mót­un­ar frá London School of Hygiene & Tropical Medic­ine. Hún var varaþingmaður Bjartr­ar framtíðar 2013 og 2014 og er nú varaþingmaður flokks­ins. Sigrún hef­ur starfað sem dós­ent á viðskipta­fræðideild Há­skóla Íslands, á viðskipta­sviði Há­skól­ans á Bif­röst og í hjúkr­un­ar­fræðideild Há­skóla Íslands. Einnig var hún formaður stjórn­ar Krabba­meins­fé­lags Íslands. Sigrún hef­ur um langt ára­bil starfað sem ráðgjafi hjá skrif­stofu Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar í Kaup­manna­höfn.

Unnsteinn hefur starfað sem aðstoðarmaður formanns Bjartrar framtíðar og meðal annars sinnt ýmsum verkefnum fyrir þingflokkinn. Hann hefur verið framkvæmdastjóri Landssambands æskulýðsfélaga og verkefnastjóri fyrir Bandalag íslenskra skáta. Unnsteinn lagði stund á skapandi verkefnastjórnun í  Hollandi og Danmörku og lauk áður námi af listnámsbraut Iðnskólans í Hafnarfirði. Hann var m.a. varaformaður Samtakanna ´78 og hefur setið í stjórn Bjartrar framtíðar, stjórn skátafélagsins Vífils og stjórn nemendafélags Iðnskólans í Hafnarfirði.  Unnsteinn sat í 3. sæti lista Bjartrar framtíðar í Reykjavík suður í þingkosningunum í fyrra.

Gylfi Ólafsson er ráðinn aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra.

Gylfi er heilsuhagfræðingur frá Stokkhólmsháskóla og lagði stund á doktorsnám í heilsuhagfræði við Karolinska í Stokkhólmi frá 2013. Hann er einnig kennaramenntaður, hefur kennt við HÍ og var fréttamaður hjá RÚV um árabil.  Gylfi var oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi í kosningunum í fyrra.

Þá hefur Borgar Þór Einarsson hæstaréttarlögmaður hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra.  Borgar Þór hefur starfað sem lögmaður frá 2004. Borgar Þór var aðstoðarmaður menntamálaráðherra frá 2003-2004. Hann var formaður SUS, 2005-2007.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur ráðið sér tvo aðstoðarmenn til starfa í velferðarráðuneytinu: Karl Pétur Jónsson og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur.

Karl Pétur hefur  BA prófi í stjórnmálafræði frá HÍ og MBA gráðu frá HR.  Hann var stofnandi og ráðgjafi hjá almannatengslafyrirtækinu Inntaki og starfaði hjá fjárfestingabankanum Askar Capital frá 2007-2009.  Karl Pétur hefur einnig verið framleiðandi leikverka og sjónvarpsþátta. 

Þorbjörg Sigríður lauk lögfræðiprófi frá HÍ og  LL.M. gráðu frá Columbia University í New York 2011. Hún er einnig með diplómagráðu í afbrotafræði frá HÍ. Þorbjörg hefur verið deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst frá 2015 og starfað sem aðstoðarsaksóknari hjá Ríkissaksóknara og deildarstjóri ofbeldisbrotadeildar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Hún hefur setið í stjórn UNIFEM og, í stjórn Kvennaathvarfsins.