„Þau eru öll að nota sína miðla til að segja sannleikann”, segir, Björn Leó Brynjarsson, leikskáld um nýtt verk sitt á fjölum Borgarleikhússins sem nýlega var frumsýnt á Nýja sviðinu og er hans fyrsta leikverk.
Sagan er þessi: Heimildamyndagerðarkonan Rakel er stödd í niðurníddum iðnaðarbæ, djúpt í Amazon-frumskóginum, ásamt Andra, tökumanni sínum og elskhuga. Þau eru að gera heimildamynd um föður Rakelar, sérvitra Nóbelskáldið Benedikt, sem er dauðvona. En feðginin hafa ekki hist í áratugi og geta ómögulega komið sér saman um hvernig Benedikt á að birtast í heimildamyndinni. Óuppgerð fjölskyldumál og framandi hitasótt blandast sjálfu höfundarverki Benedikts í draumkenndri og ærslafullri atburðarás þar sem áreiðanleiki heimsins fellur í sundur.
Björ Leó spyr meðal annars í verkinu: Er hægt að gera hlutlausa heimildamynd? Er hægt að vita og miðla sannleikanum? Hvað þá sannleikanum um sjálfan sig?
„Minnið er ekki alveg á hreinu og feðginin eru svoldið að taka á við hvað á við og hvað er sannleikurinn”, og meinar að fólk man sömu liðna atburði á svo mismunandi hátt. „Þetta er svona fólk sem vill ná saman en hafa í raun ekki verkfærin til þess, þau kunna ekki að vera næs við hvort annað”, segir Björn Leó.
Aðalleikendur eru Jóhann Sigurðarsson sem leikur stórskáldið, Unnur Ösp Stefánsdóttir og Hilmar Guðjónsson leika önnur aðalhlutverk. Leikstjóri er Pétur Ármannsson.
Hirðskáld Borgarleikhússins
Björn Leó er einn af mest spennandi höfundum ungu kynslóðarinnar. Hann sesti niður með Lindu Blöndal í þættinum 21 í kvöld. Björn Leó var leikskáld Borgarleikhússins leikárið 2017/18 og Stórskáldið er afrakstur vinnu hans en sem hirðskáld leikhússins í fyrra fetar Björn Leó meðal annars í spor Jóns Gnarr.