Blaðamenn sem kunna ekki mörkin

Á Pressunni hefur nú verið birt viðtal sem Ágúst Borgþór nokkur, blaðamaður og höfundur, tekur við sjálfan sig.

Það má lesa hér þótt ég mæli ekki með lesningunni.

Þegar ég var viðriðinn skólablað, 15 ára gamall, fannst okkur sem tókum fyrstu skref í blaðamennsku í Laugaskóla að það væri fyndin hugmynd að eitt okkar tæki viðtal við sjálft sig. Fylgir kannski barna- og unglingsárum.

En ástæða þess að ég sé með fjölmiðlarýni ástæðu til að eyða orðum á framtak þeirra Pressumanna er ekki bara að benda á hve barnalegt þetta er. Svona birting er nefnilega líka siðferðislega vafasöm. Það vill nefnilega þannig til að Ágúst Borgþór er  fyrrum blaðamaður á Pressunni og núverandi blaðamaður á DV. Þessir tveir miðlar eru systurmiðlar undir sama eignarhaldi.

Birting sjálfsviðtalsins er því ekki bara bernsk, hún er líka ófyndin fyrir fólk sem er meðvitað um ábyrgð fjölmiðla. Birtingin vekur upp spurningar um það tjón sem getur skapast þegar þeir sem starfa að fjölmiðlun kunna ekki mörkin milli eiginhagsmuna og opinberra birtinga. Undir það flokkast að bók sé auglýst af blaðamanni sem hann skrifar sjálfur og fær að birta kynninguna í systurmiðli í formi viðtals sem hann tekur við sjálfan sig.

Ófaglegt og sorglegt. En  minnir á aðra sorg sem tengdist hagsmunaárekstri fyrir nokkrum árum. Það var þegar blað sem ég ritstýrði fjallaði um rannsókn sem konan mín var annar tveggja höfunda að. Niðurstaðan var sannarlega fréttnæm og enginn hafði greint frá henni. Þess vegna birti blaðið frétt um rannsóknina en ritstjórinn strokaði út nafn konunnar sinnar og var það hvergi nefnt í umfjöllun blaðsins.

Konan mín er enn að skamma mig fyrir þetta – og hún hefur fullan rétt á því. Hún var svipt eigin vinnu, eigin heiðri. En blaðamaður verður að vita að ef valið stendur milli þess að njóta trúverðugleika lesenda sinna, hans eiginhagsmuna eða fjölskyldumeðlima, ætti valið að vera auðvelt. Fyrir þá sem kunna mörkin. Auðvelt fyrir þá sem skilja umræðu um hagsmuni, prinsipp, traust og trúnað lesenda. Að maður tali nú ekki um eldveggi auglýsinga og sjálfstæðs ritstjórnarefnis.

Þetta sjálfsviðtal Pressunnar er því eitt stórt æi. Í besta falli vandræðalegt. Í versta falli óverjandi.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst á Kvikunni á Hringbraut)