Þau sem sofa í 7 tíma upplifa betri heilsu, meiri hamingju og minni kvíðaeinkenni

Þau sem sofa í 7 tíma upplifa betri heilsu, meiri hamingju og minni kvíðaeinkenni

Yngra fólk skortir helst félagsskap og hefur það mikil tengsl við líkamlega heilsu, en 25% Íslendinga á aldrinum 18-24 segist oft eða alltaf hafa engan að leita til. Þetta kemur fram í nýrri Heilbrigðiskönnun Gallup sem Ólafur Elínarson sviðsstjóri markaðsrannsókna Gallup kynnti á ráðstefnu í Hörpu í dag.

Í könnuninni voru Íslendingar fengnir til að meta heilsu sína, með áherslu á hreyfingu, andlega heilsu, svefn og næringu. Í könnuninni kom meðal annars fram að hreyfing og svefn eru lykilatriði fyrir aukna hamingju og betri heilsu. Þau sem sofa í 7 tíma upplifa betri heilsu, meiri hamingju, minni þunglyndiseinkenni og minni kvíðaeinkenni. Það sama á við þau sem hreyfa sig reglulega. Einnig kom fram að yngri aldurshópar eru undir miklu álagi og þá sérstaklega konur og ungt fólk með barn á heimili.

Á ráðstefnunni í Hörpu í dag ávarpaði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ráðstefnugesti. Heilbrigðisráðherra kom í ávarpi sínu inn á að heilsa væri allt í senn líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma eða örorku. Það væri því allt samfélagið undir, lifnaðarhættir, umhverfisþættir, félagslegir þættir og efnahagslegir þættir, svo sem jöfnuður, fátækt, húsnæði og jafnrétti kynja. Allt væru þetta þættir sem hefðu áhrif á heilsu. Ráðherra nefndi einnig að alþjóðlegur samanburður segði okkur að við þurfum að hafa varann á í geðheilsumálum. Eigið mat á andlegri heilsu sé á leið í neikvæða átt og ungu fólki í dag líði verr en því leið fyrir 10 árum. Í þessu samhengi sé munur á tekjulágum og tekjuháum, svo félagslegur jöfnuður hafi því áhrif á hvort fólk sé við góða heilsu.

Linda Bára Lýðsdóttir frá VIRK starfsendurhæfingarsjóði, sagði frá því að 67% þeirra sem sækja þjónustu til VIRK séu konur og 80% þeirra sem leiti til VIRK hafi skerta starfsgetu vegna andlegra erfiðleika og/eða stoðkerfisvandamála. Í máli sínu kom Linda inn á það að á Íslandi sé töluverður greiningarkúltúr, til að mynda í skólakerfinu, þar sem greining sé oft skilyrði til að geta fengið aðstoð. Þetta sé þó að breytast til hins betra, því það er mikilvægt fyrir fólk með langvinn veikindi að það sjái hlutina í samhengi, sé sjálft við stjórnina og þurfi ekki að upplifa sig sem fórnarlamb.

Nýjast